ÍBV tryggði sér oddaleik á heimavelli á þriðjudaginn með afar öruggum sigri á Stjörnunni, 33:24, í annarri viðureign liðanna í úrslitakeppni Olísdeildar kvenna í handknattleik í TM-höllinni í dag. Hvort lið hefur þar með einn vinning og úrslit leiksins á þriðjudag ráða því hvort þeirra mætir Fram í undanúrslitum Íslandsmótsins.
ÍBV réði lögum og lofum í leiknum frá upphafi til enda. Varnarleikurinn var lengst af afar góður, markvarslan viðunandi og fjöldi marka skilaði sér eftir hraðaupphlaup.
Staðan í hálfleik var 16:12 fyrir ÍBV eftir að Stjarnan skoraði tvö síðustu mörk hálfleiksins.
Fljótlega í síðari hálfleik lenti Stjarnan átta mörkum undir, 21:13. Eftir það var ekkert annað að gera en að bíða eftir að leiktíminn liði. Stjarnan átti aldrei möguleika eftir þetta. Þótt liðinu tækist að minnka muninn í sex mörk, 26:20, þá var það ekkert til að hleypa spennu í eitt né neitt.
Mörk Stjörnunnar: Helena Rut Örvarsdóttir 7, Anna Karen Hansdóttir 3, Britney Cots 3, Katla María Magnúsdóttir 3, Sonja Lind Sigsteinsdóttir 2, Elísabet Gunnarsdóttir 2, Elena Elísabet Birgisdóttir 1, Lena Margrét Valdimarsdóttir 1, Eva Björk Davíðsdóttir 1, Thelma Sif Sófusdóttir 1.
Varin skot: Darija Zeceivc 8, 23,5% – Tinna Húnbjörg Einarsdóttir 1, 14,3%.
Mörk ÍBV: Sunna Jónsdóttir 8, Harpa Valey Gylfadóttir 8, Elísa Elíasdóttir 6, Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir 3, Karolina Olszowa 2, Lina Cardell 1, Ingbjörg Olsen, 1, Bríet Ómarsdóttir 1, Marija Jovanovic 1.
Varin skot: Marta Wawrzykowska 13/1, 38,2%. Erla Rós Sigmarsdóttir 0.
Öll tölfræði leiksins er hjá HBStatz.
Handbolti.is fylgdist með leiknum í TM-höllinni í stöðu- og textauppfærslu hér fyrir neðan.