Tryggvi Þórisson og félagar í IK Sävehof tryggðu sér oddaleik úrslitum um sænska meistaratitilinn í handknattleik karla í dag. Þeir lögðu IFK Kristianstad, 30:28, í Partille, og jöfnuðu þar með rimmu liðanna. Hvort lið hefur tvo vinninga.
Oddaleikurinn fer fram í Kristianstad á mánudaginn.
Kristianstad, sem vann aðra og þriðju viðureign liðanna eftir framlengingu, var öflugra framan af leiknum í dag og hafði eins marks forskot að loknum fyrri hálfleik, 13:12.
Tryggvi skoraði ekki mark í leiknum í dag. Miklu máli skipti fyrir Sävehof að færeyski handknattleiksmaðurinn Elias Ellefsen á Skipagøtu, gat verið með en hann missti af þriðju viðureigninni eftir að hafa hlotið höfuðhögg í leiknum á undan.
Elias skoraði fjögur mörk. Frændi hans, Oli Mittún, skoraði þrjú mörk. Pontus Brolin var markahæstur hjá Sävehof með sex mörk. Ludvig Åström var markahæstur hjá IFK Kristianstad með átta mörk.