Íslensku handknattleiksmennirnir Daníel Þór Ingason og Oddur Gretarsson eru áfram á sigurbraut með Balingen-Weilstetten í þýsku 2. deildinni í handknattleik. Í annað sinn í þremur leikjum vann liðið sigur á andstæðingi sínum á elleftu stundu. Fyrir hálfum mánuði tryggði Oddur liðinu sigur með sigurmarki á síðustu sekúndu. Í gær var það félagi Odds og Daníels Þórs, Felix Danner, sem skoraði sigurmarkið, 27:26, á útivelli í hörkuleik við Hüttenberg. Heimamenn jöfnuðu metin, 26:26, þegar sjö sekúndur voru eftir af leiknum. Það var svo sannarlega handagangur í öskjunni á heimavelli Hüttenberg á síðustu sekúndum leiksins.
Oddur skoraði þrjú mörk í leiknum við Hüttenberg, öll úr vítaköstum. Daníel Þór skoraði tvö mörk og átti þrjár stoðsendingar. Balingen-Weilstetten er efst með sex stig að loknum þremur umferðum ásamt gamla stórveldinu TV Großwallstadt en Igor Vori þjálfar lið þess núna.
Tumi Steinn er ennþá meiddur
Tumi Steinn Rúnarsson er ennþá frá keppni vegna meiðsla sem hann varð fyrir í æfingaferð rétt áður en keppni í Þýskalandi hófst um síðustu mánaðarmót. Tumi Steinn var þar af leiðandi ekki með Coburg í gær þegar liðið tapaði á heimavelli fyrir BBM Bietigheim, 30:28. Coburg hefur unnið einn af þremur leikjum leikjum sínum í deildinni fram til þessa.
Ýmir og félagar eru taplausir
Ýmir Örn Gíslason skoraði eitt mark og var allt í öllu í varnarleik Rhein-Neckar Löwen þegar liðið vann stórsigur á Stuttgart á útivelli, 43:30, í þýsku 1. deildinni. Rhein-Neckar Löwen hefur átta stig eftir fjóra leiki og er í efsta sæti ásamt Erlangen. Kiel og Magdeburg eru einnig með fullt hús stiga en eiga leik til góða á Löwen og Erlangen.
Erlangen vann Hamm-Westfalen, 32:29, á útivelli í gær. Ólafur Stefánsson er aðstoðarþjálfari Erlangen.
handbolti.is nýtur ekki opinbers rekstrarstuðnings.