Oddur Gretarsson og félagar í Balingen-Weilstetten eru komnir fyrir vind eftir sigur á Hannover-Burgdorf, 30:26, í þýsku 1. deildinni í handknattleik. Balingen er þar með fimm stigum frá fallsæti en í því sæti situr Ludwigshafen sem hefur sótt hart að Balingen síðustu vikur. Ludwigshafen á tvo leiki eftir en Balingen einn.
Þar með er ljóst að nýr liðsmaður Balingen, Daníel Þór Ingason, leikur með liðinu í 1. deild á næsta keppnistímabili en Daníel Þór kemur til liðsins í sumar frá vesturströnd Jótlands.
Oddur var ekki á meðal markaskorara Balingen í kvöld en hann er meiddur og hefur lítið getað haft sig í frammi upp á síðkastið.
Viggó Kristjánsson skoraði fimm mörk fyrir Stuttgart er liðið vann nauman sigur á Bergischer HC, 31:30, á útivelli. Arnór Þór Gunnarsson, leikmaður Bergischer, var fjarri í kvöld eins og í undanförnum leikjum sökum meiðsla.
Arnar Freyr Arnarsson skoraði ekki mark fyrir MT Melsungen þegar liðið tapaði fyrir Füchse Berlin á heimavelli í kvöld, 35:32. Köldu andar á milli félaganna eftir að Bob Hanning framkvæmdastjóri Berlínarliðsins og varaforseti þýska handknattleikssambandsins taldi sig í gær vera þess umkominn að þykja lítið til árangurs Melsungen á leiktíðinni koma og frammistöðu þýskra landsliðsmanna liðsins.
Alexander Petersson var ekki í leikmannahópi Flensburg sem vann Erlangen á útivelli, 27:26. Þá vann Leipzig liðsmenn Nordhorn, 24:21.
Staðan: