Handknattleiksmaðurinn Óðinn Þór Ríkharðsson er í fyrsta sinn á leiktíðinni í leikmannahópi svissneska meistaraliðsins í Kadetten Schaffhausen í kvöld þegar Montpellier sækir Kadetten heim A-riðli Evrópudeildarinnar í handknattleik. Leikurinn fer fram í BBC Arena í Shaffhausen.
Óðinn Þór, sem sló í gegn hér á landi á síðasta keppnistímabili með KA, gekk til liðs við Kadetten í sumar. Hann var svo óheppinn að ristarbrotna á æfingu upp úr miðjum ágúst, nokkru dögum fyrir fyrsta leik Kadetten sem var í meistarakeppninni í Sviss. Aðalsteinn Eyjólfsson er þjálfari Kadetten.
Nokkrum dögum eftir að Óðinn Þór ristarbrotnaði gekkst hann undir aðgerð þar sem ristin var negld. Nú hefur hann alltént náð þeim bata að vera í leikmannahópi liðsins í kvöld gegn Montpellier.
Óðinn Þór var valinn leikmaður Olísdeildar karla á síðasta keppnistímabili auk þess sem hann varð markakóngur. Til viðbótar lék hann afar vel með íslenska landsliðinu gegn Austurríkismönnum í undankeppni HM í apríl í fjarveru Sigvalda Björns Guðjónssonar.