Óðinn Þór Ríkharðsson er mættur á æfingu undir stjórn Guðjóns Vals Sigurðssonar hjá þýska handknattleiksliðinu Gummersbach. Félagið tilkynnti um komu Óðins Þórs í morgun en hann hefur samið um að leika með liðinu út árið. Hleypur Óðinn Þór í skarðið fyrir hægri hornamanninn Lukas Blohme sem meiddist á dögunum.
Handbolti.is greindi frá vistaskiptunum á laugardagsmorgun en þau voru síðar sama dag staðfest af KA.
Óðinn Þór tekur þátt í sínum fyrsta leik með Gummersbach annað kvöld þegar Gummersbach mætir Nordhorn-Lingen í 16-liða úrslitum þýsku bikarkeppninnar í Schwalbe Arena í Gummersbach.
Samkomulag varð á milli KA, sem Óðinn Þór er samningsbundinn við, og Gummersbach um að hornamaður leiki með þýska liðinu til ársloka.