Óðinn Þór Ríkharðsson landsliðsmaður í handknattleik hefur skrifað undir nýjan samning við svissneska meistaraliðið Kadetten Schaffhausen sem gildir til ársins 2030. Fyrri samningur Óðins Þórs var til ársins 2027. Hann gekk til liðs við Kadetten Schaffhausen sumarið 2022 og hefur síðan orðið meistari í Sviss ár hvert með liðinu.
Fram kemur í tilkynningu frá Kadetten Schaffhausen að Óðinn Þór hafi skorað 732 mörk í 105 leikjum með liðinu í svissnesku A-deildinni og 216 mörk í Evrópukeppni. Óðinn Þór var markakóngur Evrópudeildarinnar leiktíðina 2022/2023. Hann er eftirlæti stuðningsmanna liðsins fyrir falleg mörk og skemmtileg skottilbrigði.
Um þessar mundir er Óðinn Þór næst markahæstur í A-deildinni í Sviss með 58 mörk í sjö leikjum en liðið er efst og taplaust að loknum sjö umferðum. Frammistaða Óðins Þórs með liðinu undanfarin ár hafi vakið athygli annarra félaga. Engu að síður hafi Óðinn Þór ákveðið að halda tryggð við Kadetten Schaffhausen enda sjái hann möguleika á frekari framförum auk þess að félagið stigi fleiri framfaraskref og öðlist m.a. sæti í Meistaradeild Evrópu á næstu árum. Þess utan líði honum og fjölskyldu vel í Schaffhausen.