„Tilfinningin er súrsæt í leikslok því við stóðum í þeim í svo langan tíma í leiknum. Mér fannst við vera jafngóðar og þær hollensku að þessu sinni. Það sem skildi á milli var að þær voru betri síðustu mínúturnar. Þessi frammistaða gefur okkur bara fullt sjálfstraust fyrir næstu leiki,“ sagði Elín Jóna Þorsteinsdóttir markvörður Íslands og maður leiksins gegn hollenska landsliðinu í kvöld á Evrópumótinu í handknattleik í naumu tapi Íslands, 27:25. Staðan var jöfn í hálfleik, 12:12.
Mikið power í stelpunum
„Það er bara svo mikið power í stelpunum í landsliðinu. Ég er stolt og hræð yfir frammistöðunni. Langt er síðan við lékum gegn toppliði eins og hollenska liðið er. Okkur leið eins og við værum á sama stað. Við getum þetta. Það er ógeðslega góð tilfinning sem við verðum að taka með okkur í næstu leiki,“ sagði Elín Jóna sem fór á kostum í markinu, varði 15 skot, þar af eitt vítakast og skoraði auk þess eitt mark.
Tala mikið við vörnina
Elín Jóna var hæverskan uppmáluð spurð út í frammistöðu sína í leiknum og sagði samherja sína eiga stóran hlut að máli.
„Mér gekk vel vegna þess að vörnin vann þá vinnu sem ég vildi að hún gerði. Ég tala mjög mikið við þær í vörninni um það hvar ég vil fá skotin og þær voru rosalega góðar að beina leikmönnum Hollands á þá staði þar sem ég vildi fá skotin,“ sagði Elín Jóna Þorsteinsdóttir markvörður íslenska landsliðsins í samtali við handbolta.is í Innsbruck í kvöld.
Tveggja marka tap – besti leikur kvennalandsliðsins frá upphafi – áfram veginn
EM kvenna ”24 – leikjadagskrá, riðlakeppni