„Þetta er ógeðslega súr niðurstaða eftir að hafa verið með leikinn í höndunum lengst af, nánast þangað til í lokin að allt fór að klikka hjá okkur. KA/Þór á deildarmeistaratitilinn skilið eftir ævintýri þeirra í allan vetur en við áttum sigur í þessum leiks skilið,“ sagði Karen Knútsdóttir, fyrirliði Fram og markahæsti leikmaður liðsins ásamt Ragnheiði Júlíusdóttur með 9 mörk þegar Fram gerði jafntefli við KA/Þór í lokaumferð Olísdeildarinnar í dag, 27:27.
Úrslitin þýddu að KA/Þór er deildarmeistari í fyrsta sinn þótt liðið hafi fengið jafn mörg stig og Fram þegar upp er staðið. KA/Þór vann fyrri leikinn við Fram á heimavelli, 27:23.
„KA/Þór hefur heilt yfir staðið sig vel og átt jafnbetra tímabil en við. Við höfum verið að fá leikmenn til baka og missa aðra út og ekki verið sama jafnvægi og stundum áður. En vissulega þekkjumst við vel og eigum að vinna svona leiki. Það tókst ekki. Hinsvegar var hér um að ræða alvöru úrslitaleik. Mikið undir hjá báðum liðum en því miður þá tókst okkur ekki að leika nógu vel á endasprettinum,“ sagði Karen en Fram var fimm mörkum yfir í hálfleik, 17:12.
„Nú tekur úrslitakeppnin við og vonandi verða ekki fleiri bönn við æfingum og keppni. Við hristum þennan leik af okkur og svörum fyrir okkur í úrslitakeppninni,“ sagði Karen Knútsdóttir, fyrirliði Fram, í samtali við handbolta.is í Safamýri í dag.