- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Ógeðslega svekkjandi niðurstaða

Sigvaldi Björn Guðjónsson var vonsvikinn í leikslok. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

„Þetta er ógeðslega svekkjandi niðurstaða vegna þess að við áttum möguleika á að vinna þennan mjög erfiða leik,“ sagði Sigvaldi Björn Guðjónsson, einn landsliðsmanna Íslands í samtali við handbolta.is í kvöld eftir eins marks tap, 23:22, íslenska liðsins í viðureigninni við Króata á Evrópumeistaramótinu í handknattleik í dag.


„Við lentum í miklum vandræðum með að skora mörk en loksins þegar tækifærin gáfust þá tókst okkur ekki að nýta færin. Það eru hrikaleg vonbrigði að ná ekki stigunum tveimur,“ sagði Sigvaldi Björn.


Eftir afar góðan leik fyrstu 20 mínúturnar og tveggja marka forskot að loknum fyrri hálfleik þá voru fyrstu 15 til 20 mínútur síðari hálfleiks erfiðar af hálfu íslenska liðsins.

Þreyta segir til sín

„Þegar við fórum í sjö á sex þá tókst okkur aðeins að opna betur vörn Króatanna og saxa á forskot þeirra. En fram að því náðum við ekki að vinna nógu mikið úr stöðunni maður á mann og fleira eftir því sem kom okkur í koll. Kannski spilaði þreyta eitthvað inn í,“ sagði Sigvaldi Björn.


Tíu mínútum fyrir leikslok var íslenska liðið fjórum mörkum undir en á um fimm mínútum lánast því að snúa taflinu við. Sigvaldi segir að þrátt fyrir þreytu þá hafi karakter liðsins skinið í gegn. Menn hafi aldrei gefist upp og lagað stöðuna og opna fyrir möguleika á sigri. „Við náðum að komast einu marki yfir. En svo snerust spilin í höndunum á okkur, því miður. Það er svo svekkjandi,“ sagði Sigvaldi Björn sem skoraði fimm mörk í leiknum.

Leggjum allt í sölurnar

„Það þýðir hinsvegar ekki að dvelja of lengi við þennan leik. Framundan er næsti leikur. Við viljum meira og ætlum lengra. Við leggjum allt undir gegn Svartfellingum,“ sagði Sigvaldi Björn sem vonast til að „ferskir fætur“ bætist í hópinn fyrir lokaleikinn í milliriðlakeppninni á miðvikudaginn. Hluti þeirra sem nú eru í einangrun verði klárir í hólmgönguna gegn Svartfellingum.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -