„Stjarnan lék agaðan leik ólíkt okkur. Ef ég tel rétt þá vorum við með um 20 tapaða bolta. Það segir sig sjálft að það er ógjörningur að vinna leik með slíkri frammistöðu,“ sagði Róbert Gunnarsson þjálfari karlaliðs Gróttu eftir sex marka tap á heimavelli, 27:21, fyrir Stjörnunni í Olísdeild karla í handknattleik í kvöld. Stjarnan fór stigi upp fyrir Gróttu í 7. sæti deildarinnar með stigunum tveimur.
Hvaða lið sem er hefði unnið okkur
„Nánast hvaða lið sem er á Íslandi hefði unnið okkur eins og við spiluðum í kvöld,“ sagði Róbert ennfremur. Aðeins munaði tveimur mörkum á liðunum að loknum fyrri hálflei, 14:12, Stjörnunni í hag. Grótta skoraði aðeins níu mörk í síðari hálfleik.
Enginn getur fríað sig ábyrgð
„Leikurinn var kaflaskiptur hjá okkur og algjör óþarfi að vera undir að loknum fyrri hálfleik. Síðari hálfleikur var alls ekki nógu góður, var enn síðri en sá fyrri. Við verðum allir að setjast yfir það hvað þarf að gera betur. Enginn getur fríað sig ábyrgð eftir þessa frammistöðu,“ sagði Róbert ennfremur.
„Það vantaði bara nánast allt. Flæðið á boltanum var slæmt, tæknifeilar voru margir, nýting færa var óviðunandi. Fyrir leikinn í kvöld hélt ég að við værum búnir að finna taktinn. Annað kom á daginn,“ sagði Róbert Gunnarsson þjálfari Gróttu þungur á brún.
Staðan og næstu leiki í Olísdeildum.
Mörk Gróttu: Ágúst Ingi Óskarsson 6/1, Jakob Ingi Stefánsson 4/1, Elvar Otri Hjálmarsson 4, Hannes Grimm 3, Ágúst Emil Grétarsson 1, Ari Pétur Eiríksson 1, Gunnar Dan Hlynsson 1, Jón Ómar Gíslason 1.
Varin skot: Einar Baldvin Baldvinsson 6, 23,1% – Shuhei Narayama 6, 46,2%.
Mörk Stjörnunnar: Egill Magnússon 7, Pétur Árni Hauksson 7, Starri Friðriksson 5, Tandri Már Konráðsson 4, Daníel Karl Gunnarsson 3, Hrannar Bragi Eyjólfsson 1.
Varin skot: Adam Thorstensen 13, 38,2% – Sigurður Dan Óskarsson 1/1, 100%.
Öll tölfræði leiksins hjá HBStatz.