„Ítalir hafa sýnt það í síðustu leikjum sínum að þeir eru færir um að leika á annan hátt en margir aðrir,“ segir Arnór Atlason aðstoðarþjálfari karlalandsliðsins í handknattleik spurður út í andstæðinga íslenska landsliðsins í upphafsleik Evrópumótsins í handknattleik karla í dag, landslið Ítalíu.
Maður á mann í vörn
„Í varnarleiknum leika þeir oft 3/3 vörn, nánast maður á mann og fylgja eftir öllum innleysingum andstæðinganna. Í sókninni leika þeir með fjóra útleikmenn og eru án línumanns. Nokkur félagslið hafa reynt sig áfram með svipaðan sóknarleik en kannski alveg í eins ríku máli og Ítalir.
Fyrir utan að leika á óhefðbundinn hátt þá eru þeir bara góðir í því sem þeir eru að gera sem verður til þess að þeir eru erfiðari en ella,“ segir Arnór og bætir við.
„Auk þessa óhefðbundna leiks þá getur ítalska liðið einnig leikið afar vel 6/0 vörn og hefðbundinn sóknarleik.“
Stórstígar framfarir
Arnór segir undirbúning landsliðsins hafa verið áhugaverðan í ljósi þess fjölbreytta leiks sem Ítalir leika, jafnt í vörn sem sókn. „Maður hefur séð vel að um er að ræða mjög gott handboltalið sem tekið hefur stórstigum framförum á undanförnum árum,“ segir Arnór.
Svarað með sjö á sex
Ítalir hafa leikið við Rúmena og Færeyinga á síðustu vikum. Arnór segir að bæði lið hafi svarað varnarleik ítalska landsliðsins með því að fara í sjö manna sóknarleik. „Þar af leiðandi hafa Ítalir þurft að bakka,“ segir Arnór sem vill vitanlega lítið segja hvernig íslenska landsliðið hyggst bregðast við óhefðbundnum leik andstæðinganna í dag.
Krefjandi leikur
„Víst er að þetta verður krefjandi leikur til viðbótar því um er að ræða fyrsta leik á stórmóti. Allir vilja fara vel af stað. Við erum engin undantekning þar á. Við berum virðingu fyrir ítalska landsliðinu sem hefur náð flottum úrslitum upp á síðkastið. Við erum að fara að mæta hörkuliði og við viljum sýna okkar bestu hliðar gegn því. Ef við náum að sýna okkar besta leik þá getum við náð hagstæðum úrslitum,“ segir Arnór Atlason aðstoðarþjálfari landsliðsins.
Viðureign Íslands og Ítalíu hefst í Kristianstad Arena klukkan 17.




