- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Okkar er að brjóta múrinn

Aðalsteinn Eyjólfsson þjálfari Kadetten í Sviss. Mynd/EPA
- Auglýsing -

„Þetta verður hörkurimma og afar áhugavert að sjá hvernig hún þróast,“ segir Aðalsteinn Eyjólfsson þjálfari Kadetten Schaffhausen spurður um úrslitarimmu liðsins við Pfadi Winterthur í úrslitum um meistaratitilinn í handknattleik karla í Sviss. Fyrsti leikurinn verður á heimavelli Aðalsteins og lærisveina í kvöld. Pfadi er ríkjandi meistari, hafði betur í úrslitum við Kadetten á síðasta ári. Þétt verður leikið og fer t.d. þriðja viðureignin fram á þriðjudaginn.


„Pfadi er með góða blöndu af eldri og yngri leikmönnum. Liðið stóð sig ágætlega í Evrópudeildinni,“ sagði Aðalsteinn og bætir við.

Okkar að sækja titilinn

„Okkar er að sækja titilinn eftir að hafa tapað fyrir þeim í fyrra með talsvert laskað lið eftir mjög erfitt tímabil. Staðan er aðeins betri á okkur um þessar mundir, erum ferskari og væntanlega reynslunni ríkari,“ sagði Aðalsteinn en lið hans hafði talsverða yfirburði í deildarkeppninni á tímabilinu og tapaði varla leik.


Kadettenliðið hefur náð vopnum sínum á síðustu dögum eftir að hafa fengið ágæta hvíld. Liðið vann undanúrslitarimmuna í þremur leikjum á sama tíma og Pfadi þurfi að fara í fimm leiki í undanúrslitum.

Betra útlit en áður

„Útlitið er betra hjá okkur núna en fyrir nokkrum vikum þegar ég var með tvo leikmennina sem hafa leikið í miðjublokkinni í meiðslum. Annar er kominn til baka. Varnarleikurinn var áhyggjuefni en vonandi verður hann í lagi.

Sóknarleikurinn ætti að vera góður,“ sagði Aðalsteinn ennfremur. Hann er nokkuð vongóður um þessar mundir enda er liðið aðeins að berjast á einum stað núna en það var á fullri ferð í Evrópudeildinni á keppnistímabilinu. Kadetten komst alla leið í átta liða úrslit hvar það féll úr keppni eftir leiki við Wisla Plock.


Ekki er nóg að vera sigurstranglegri fyrirfram. Menn verða að geta staðið undir væntingum í þeirri stöðu og það getur reynst reynslulitlum leikmönnum fótakefli þegar á hólminn er komið.

Meistari síðast 2019

Kadetten varð síðasta meistari í Sviss árið 2019 eftir úrslitakeppni. Árið eftir stóð liðið best að vígi í deildinni þegar mótinu var slaufað í mars eftir að covid fór að leika lausum hala. Aðalsteinn tók við þjálfun liðsins sumarið 2020 og undir hans stjórn varð Kadetten bikarmeistari 2021 en mátti að sætta sig við silfur í úrslitakeppninni um meistaratitilinn.


Talsverð uppstokkun hefur orðið á leikmannahópi Kadetten á þeim tveimur árum sem Aðalsteinn hefur verið við stjórnvölin. Liðið var tekið að eldast þegar hann kom að borðinu.

Ungt lið og reynslumaðurinn Cañellas

„Nú erum við með að uppistöðu til yngri leikmenn sem flestir eru aldir upp í gegnum félagið. Til viðbótar er reynsluboltinn Joan Cañellas með okkur. Við þurftum aðeins að breyta um stefnu vegna covid, slá aðeins af, en í staðinn höfum við öðruvísi samansett lið en áður var.


Við erum með ungt og ferskt lið meðan lið Pfadi er skipað eldri og reynslumeiri leikmönnum sem þekkir kannski betur að fara í gegnum svona keppni. Cañellas leiðir þetta svolítið hjá okkur. Nú þurfa mínir menn að sýna að þeir hafi lært af þeirri reynslu sem þeir fengu í úrslitunum í fyrra. Okkar verkefni er að brjóta múrinn,“ sagði Aðalsteinn Eyjólfsson þjálfari Kadetten Schaffhausen í Sviss í samtali við handbolta.is.


- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -