- Auglýsing -
- Auglýsing -

ÓL: Alfreð og félagar í efsta sæti – mæta Frökkum í átta liða úrslitum

Alfreð Gíslason léttur í bragði. Ljósmynd/EPA
- Auglýsing -

Alfreð Gíslason og leikmenn hans í þýska landsliðinu unnu landslið Slóveníu á afar sannfærandi hátt í lokaumferð A-riðils handknattleikskeppni Ólympíuleikanna í dag, 36:29, eftir að hafa verið níu mörkum yfir í hálfleik, 23:14. Sigurinn tryggði þýska landsliðinu efsta sæti riðilsins sem verður til þess að Þjóðverjar mæta Frökkum í átta liða úrslitum á miðvikudaginn í Lille. Frakkar lögðu Ungverja í B-riðli í dag, 24:20, í uppgjöri um fjórða sæti riðilsins og síðasta sætið í átta liða úrslit.

Runnu á rassinn

Ungverjar veittu harða mótspyrnu, ekki síst í síðari hálfleik, gegn Frökkum. Ungverjar komust yfir um skeið en runnu á rassinn á síðustu 10 mínútunum þegar sóknarleikurinn var í handaskolum. Frakkar skoruðu sex af síðustu sjö mörkum leiksins og sluppu þar með inn í átta liða úrslit eftir afar ósannfærandi frammistöðu framan af mótinu.

Ekki eru öll kurl komin til grafar

Ekki eru öll kurl komin til grafar ennþá í riðlakeppninni og því ekki víst hvaða lið önnur mætast í átta liða úrslitum. Ljóst er þó að Slóvenar ná öðru sæti í A-riðli á eftir Þýskalandi.
Ungverjar og Argentínumenn sitja eftir með sárt ennið í B-riðli og halda heima á morgun. Japan rekur lestina í A-riðli.

Í kvöld skýrist hvort Spánn eða Króatía, undir stjórn Dags Sigurðssonar, fylgja Svíum, Slóvenum og Þjóðverjum í átta liða úrslit úr A-riðli. Danmörk, Egyptaland, Noregur og Frakkland fara áfram í átta liða úrslit úr A-riðli.

Aldrei von

Slóvenar náðu að hanga í Þjóðverjum fyrstu 20 mínúturnar í dag áður en leiðir skildi. Þýskaland var marki yfir, 11:10, eftir 18 mínútur. Þá hrökk vörn Þjóðverja í gang og sóknarleikurinn var stórkostlegur. Niðurstaðan eftir fyrri hálfleik var níu marka forskot, 23:14. Þýska liðið hélt í horfinu í síðari hálfleik.

Janik Kohlbacher að skora annað af tveimur mörkum sínum gegn Slóvenum í dag. Mynd/IHF

Fyrr í dag unnu Svíar liðsmenn Japans, 40:27. Sænska liðið var öruggt um sæti í átta liða úrslitum fyrir viðureignina. Eins vann Egyptaland lið Argentínu, 34:27, í B-riðli.

Mörk Þýskalands: Kai Häfner 7, Sebastian Heymann 6, Lukas Mertens 4, Julian Köster 4, Juri Knorr 3, Marko Grgic 4/3, Janik Kohlbacher 2, Christoph Steinert 2, Johannes Golla 2, Renars Uscins 1, Rune Dahmke 1.
Varin skot: Andreas Wolff 10/1, 42% – David Späth 7/1, 33%.
Mörk Slóveníu: Kristjan Horzen 7, Nik Henigman 4, Blaz Janc 3, Jure Dolenec 3/1, Nejc Cethe 3, Aleks Vlah 3, Miha Zarabec 2, Stas Jovicics 2, Blaz Blagotinsek 2.
Varin skot: Urh Kastelic 5, 18% – Urban Lesjak 3, 19%.

Leikjadagskrá og staðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -