- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

ÓL: Alfreð og félagar komnir á blað eftir átta marka sigur

Hvítklæddir leikmenn þýska landsliðsins þakka Argentínumönnum fyrir leikinn. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Þýska landsliðið, undir stjórn Alfreðs Gíslasonar, er komið á blað í handknattleikskeppni Ólympíuleikanna. Þjóðverjar unnu Argentínumenn með átta marka mun, 33:25, í annarri umferð B-riðilsins í nótt að íslenskum tíma.


Fyrri hálfleikur var jafn og var þýska liðið aðeins með eins marks forskot að loknum fyrri hálfleik, 13:12. Leiðir skildu í síðari hálfleik þegar varnarleikur þýska liðsins small og sóknarleikurinn gekk eins og í sögu en m.a. fengu Þjóðverjar talsvert af hraðaupphlaupum.


Á miðvikudaginn mætast Þýskaland og Frakkland og hefst leikurinn í hádeginu að íslenskum tíma, kl. 12.30. Þjóðverjar þurfa nauðsynlega að vinna þann leik til þess að eiga góða möguleika á að verða ofar en í fjórða sæti í riðlinum.


Marcel Schiller og Timo Kasetning voru markahæstir í þýska liðinu með sjö mörk hvor. Steffen Weinhold var næstur með fimm mörk. Markvörðurinn Andreas Wolff var nær allan leikinn í þýska markinu og var með 33% hlutfallsmarkvörslu þegar upp var staðið.


Diego Simonet var atkvæðamestur í argentínska liðinu eins og stundum áður. Hann skoraði fimm mörk og eins Ramiro Martinez.

Frakkinn Valentin Porte einn gegn Rangel de Rosa öðrum af markvörðum brasilíska landsliðsins í leik Frakklands og Brasilíu í nótt. Mynd/EPA

Frakkar eru í góðum málum


Frakkar eru með fullt hús stiga eftir tvær umferðir í B-riðli. Þeir unnu Brasilíumenn með fimm marka mun í upphafsleik annars leikdags, 34:29. Brasilíska landsliðið var skrefi á eftir frá upphafi til enda og var m.a. þremur mörkum undir í hálfleik, 16:13.


Brasilía er án stiga og leikur við Spán á miðvikudaginn.

Leonardo Druta var markahæstur Brasilíumanna. Hann skoraði 10 mörk. Gustavo Rodrigues og Fabio Chiuffa skoruðu fimm mörk hvor.


Eins og oft áður dreifðist markaskorið jafnt á milli frönsku leikmannanna. Nicolas Tournat, Nikola Karabatic og Michaël Guigou skoruðu fjórum sinnum hver.


Þriðji leikurinn í riðlinum stendur yfir en þar eigast við Norðmenn og Spánverjar.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -