- Auglýsing -
- Auglýsing -

ÓL: Alfreð og Þjóðverjar hentu Frökkum út í mögnuðum leik

Alfreð Gíslason léttur í bragði. Ljósmynd/EPA
- Auglýsing -

Alfreð Gíslason og lærisveinar hans í þýska landsliðinu hentu Evrópu- og Ólympíumeisturum Frakka út úr keppni á Ólympíuleikunum í dag með sigri, 35:34, í mögnuðum framlengdum leik í Stade Pierre Mauroy Arena í Lille. Renars Uscins skoraði sigurmarkið fimm sekúndum fyrir leikslok eftir að Valentine Porte hafði jafnað metin fyrir Frakka eftir langa sókn nokkrum sekúndum áður.

Uscins skoraði sigurmark Þýskalands með þrumuskoti yfir hægra öxl Nikola Karabatic, fremsta handknattleiksmanns sögunnar, sem kvaddi sviðið með þessu tapi.
Frakkar brunuðu fram en David Späth markvörður varði síðasta markskot Frakka en leiktíminn var þá þegar á enda runninn.

Rós í hnappagatið

Þjóðverjar mæta Spánverjum í undanúrslitum á föstudaginn, væntanlega klukkan 14.30. Árangurinn er enn ein rósin í hnappagat Alfreðs sem setið hefur undir talsverðri gagnrýni í Þýskalandi allt frá EM í vetur. Nú eru þær raddir býsna hjáróma. Alfreð er kominn með sína sveit í undanúrslit, sem er ein sú yngsta á leikunum, skrefi framar en á leikunum fyrir þremur árum.

Renars Uscins, lengst til hægri er búinn að rífa sig úr keppnistreyjunni og fagnar með samherjum sínum þegar leiktíminn var úti. Ljósmynd/EPA

Unnu upp sex marka mun

Síðari hálfleikur var hreint stórkostlegur af hálfu Þjóðverja, þ.e. eftir að þeir lentu sex mörkum undir, 20:14, á 32. mínútu. Undir vaskri stjórn Alfreðs þá vann þýska liðið sig jafnt og þétt inn í leikinn gegn frábæru frönsku landsliði sem var með nærri 27 þúsund áhorfendur á bak við sig.

Axarskaft hjá Mem

Frakkar náðu tveggja marka forskoti þegar 55 sekúndur voru eftir af venjulegum leiktíma, 29:27. Uscins skoraði 28. mark þýska liðsins þega 13 sekúndur voru til leiksloka. Frakkar hófu sókn og Dika Mem, á óskilandlegan hátt, sendi boltann á Þjóðverjann Julian Köster sem þakkaði fyrir sig og sendi rakleitt á áðurnefndan Uscins sem skoraði jöfnunarmarkið í þann mund sem leiktíminn var á enda, 29:29. Ótrúlegt axarskaft hjá snjallasta handknattleiksmanni heims um þessar mundir, Dika Mem.

Nikola Karabatic þakkar fyrir sig að loknum síðasta handboltaleiknum á ferlinum. Ljósmynd/EPA

Stóðust álagið

Í framlengingunni skiptust liðin á um að vera yfir og missa leikmenn af leikvelli auk þess sem vallarklukkan gekk brösulega. Allt lagðist á eitt við að auka á spennuna. Það voru Þjóðverjar sem stóðust álagið og komust verðskuldað áfram í undanúrslit. Frakkar hverfa á braut. Draumur þeirra um Ólympíugull á heimavelli og veglega kveðjuathöfn fyrir Karabatic varð að engu.

Þjóðverjar fagna en Frakkinn Nedim Remili heldur um höfuð sitt. Ljósmynd/EPA

Stórkostlegur Uscins

Renars Uscins átti stórkostlegan leik. Hann bar uppi sóknarleik Þýskalands og tók af skarið þegar á þurfti að halda. Sigurmark hans í framlengingunni verður lengi í minnum haft. Alls skoraði þessi 23 ára piltur 14 mörk í 21 skoti, þrjú mörk úr vítaköstum. Annar ungur leikmaður, David Späth markvörður átti einnig stórleik. Hann varði 14 skot, 39%, og bætti upp fyrir Andreas Wolff sem var ekki nærri því að verja skot í fyrri hálfleik.

Mörk Þýskalands: Renars Uscins 14/3, Sebastian Heymann 6, Johannes Golla 6, Juri Knorr 5, Christoph Steinert 1, Lukas Mertens 1, Rune Dahmke 1, Julian Köster 1.
Varin skot: David Späth 14, 39% – Andreas Wolff 0.

Mörk Frakklands: Dika Mem 10, Hugo Descat 8/4, Elohim Prandi 4, Melvyn Richardson 3, Ludovic Fabregas 3, Nicolas Tournat 2, Nedim Remili 2 Aymeric Minne 1, Valentie Porte 1.
Varin skot: Vincent Gerard 24, 42%.

ÓL24: handbolti karla, leikir, úrslit, staðan

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -