Dagur Sigurðsson og leikmenn króatíska landsliðsins höfðu betur gegn Alfreð Gíslasyni og hans liðsmönnum í þýska landsliðinu í 3. umferð handknattleikskeppni Ólympíuleikanna í morgun. Króatar léku mjög vel eftir endasleppta frammistöðu gegn Slóvenum í fyrradag. Lokatölur, 31:26. Staðan í hálfleik var, 15:13, Króötum í hag. Þetta var fyrsta tap þýska liðsins í Ólympíukeppninni og um leið annar sigur Króata.
Króatar léku mjög sterkan varnarleik frá upphafi til enda. Þýska liðið virtist ekki vera með margra aðrar lausnir aðrar en að koma boltanum inn á Johannes Golla á línunni. Króatar voru fljótir að taka frumkvæðið og voru með eins til þrigga marka forskot allan fyrri hálfleikinn.
Fljótlega í síðari hálfleik hertu Króatar tökin. Þjóðverjar skiptu yfir í 7/6 en það vopn snerist í höndum þeirra. Króatar skoruðu auðveld mörk í kjölfar öflugs varnarleiks og náðu fljótlega fimm marka forskoti. Þýska liðið breytti yfir í 6/6 aftur og léku þannig til leiksloka. Króatar héldu þýska liðinu í greipum sér til loka.
Sem fyrr segir var varnarleikur Króata mjög góður auk þess sem sóknarleikurinn var agaður með Ivan Martinovic í miklum ham. Einnig lék Luka Cindric og Domagoj Dunvjak afar vel og sáu um að sóknarleikurinn færi aldrei út böndum. Reynslan skein af fyrirliðanum Duvnjak sem sýndi sínar bestu hliðar sem leiðtogi liðsins.
Þýska liðið var fjarri því að leika eins vel og gegn Svíum í fyrstu umferð. Sóknarleikurinn var slakur auk þess sem Andreas Wolff náði sér alls ekki á strik í markinu í síðari hálfleik.
Króatar mæta Svíum á föstudaginn en Þjóðverjar leika við Spánverja. Úrslit leikjanna geta skipt miklu máli fyrir hvert liðanna kemst áfram og hvaða lið situr eftir ásamt Japan sem virðist vera með lang slakasta liðið í B-riðli.
Mörk Króatíu: Ivan Martinovic 9/1, Luka Cindric 5, Domagoj Duvnjak 5, Mario Sostaric 5/2, Lovro Mihic 4, Zvonimit Srna 1, Marin Sipic 1, Veron Nacinovic 1.
Varin skot: Dominik Kuzmanovic 12, 32% – Matej Mandic 1/1, 100%.
Mörk Þýskalands: Johannes Golla 8, Renars Uscins 4, Rune Damke 3, Luka Witzke 3, Julian Köster 2, Juri Knorr 2, Sebastian Heymann 1, Kai Häfner 1, Christoph Steinert 1, Marko Grgic 1/1.
Varin skot: Andreas Wolff 8/1, 26% – David Späth 1, 17%.
Leikjadagskrá.