- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

ÓL: Fer norska landsliðið sömu leið og í London 2012?

Stine Oftedal hefur unnið átta gullverðlaun með norska landsliðinu, ekkert þeirra er frá Ólympíuleikum. Oftedal hættir handknattleik eftir leikana í París. Mynd/IHF
- Auglýsing -

Ekkert einsdæmi er að hið sterka norska kvennalandslið hefji handknattleikskeppni Ólympíuleika á tapleik eins og það gerði í gærkvöld þegar það lá fyrir sænska landsliðinu, 32:28. Skemmst er að minnast Ólympíuleikana 2012 í London, þeim fyrstu sem liðið tók þátt í eftir að Þórir Hergeirsson tók við starfi aðalþjálfara.

Skriðu í 8-liða úrslit

Á leikunum 2012 vann norska landsliðið tvo leiki, gerði eitt jafntefli og tapaði tveimur leikjum í riðlakeppninni og hafnaði í fjórða sæti. Varð semsagt síðasta liðið sem fór áfram úr B-riðli. Frakkar unnu riðilinn með níu stig af 10 mögulegum. Suður Kórea varð í öðru sæti og Spánn í þriðja sæti eftir fimm marka sigur, 25:20, á norska landsliðinu í fimmtu og síðustu umferð riðlakeppninnar. Noregur vann Dani og Svía í riðlakeppninni, þjóðirnar sem sátu eftir, og komust ekki áfram í átta liða úrslit.

Engin bönd héldu

Þegar í útsláttarkeppnina var komið héldu norska landsliðinu engin bönd. Í átta liða úrslitum unnu norsku konurnar landslið Brasilíu, 21:19. Brasilíska liðið vann hinn riðil undankeppninnar. Þegar komið var í undanúrslit vann norska liðið öruggan sigur á Suður Kóreu, 31:25, og loks Svartfjallaland í úrslitaleik Ólympíuleikanna, 26:23. Svartfellingar voru með hörkulið á þeim tíma og unnu m.a. Frakka í átta liða úrslitum, 23:22.

Svartfellingar hefndu fyrir tapið á Ólympíuleikunum með því að vinna norska landsliðið í úrslitaleik Evrópumótsins í Belgrad í desember 2012.

Tap í gærkvöld fyrir Svíum í upphafsleik riðlakeppni Ólympíuleikana þarf ekki að þýða að norska landsliðið, undir stjórn Þóris Hergeirssonar, sé af baki dottið. Síður en svo með alla þá reynslu sem liðið býr yfir, utan vallar sem innan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -