- Auglýsing -
- Auglýsing -

ÓL: Ryde bjargaði öðru stiginu

Linn Blohhm og samherjar í sænska landsliðinu eru taplausar eftir þrjá leiki í Tókýó. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Jessica Ryde, markvörður, var hetja Svía þegar hún varði vítakast er leiktíminn var úti í leik við Frakka í 3.umferð handknattleikskeppni kvenna á Ólympíuleikunum í Tókýó. Þar með tryggði hún sænska landsliðinu annað stigið, 28:28, og áframhaldandi veru í efsta sæti B-riðils. Svíar hafa nú fimm stig og eiga afar góða möguleika á að komast í átta liða úrslit.

Ryde varði vítakast frá hinni þrautreyndu Grace Zaadi þegar leiktíminn var úti. Frakkar hafa þar með þrjú stig í riðlinum eins og Rússar og Brasilíumenn. Spánverjar hafa fjögur stig. Annars er staðan í B-riðli afar jöfn og fimm lið af sex berjast um sætin fjögur í átta liða úrslitum.

Leikur Frakka og Svía var stórskemmtilegur. Frakkar voru sterkari í fyrri hálfleik og voru um skeið með þriggja marka forskot. Þeir voru marki yfir í hálfleik, 17:16. Síðari hálfleikur var stál í stál og jafntefli e.t.v. sanngjörn niðurstaða þótt Frakkar nagi sig vafalaust í handarbökin þegar upp er staðið.

Carin Strömberg átti enn einn stórleikinn fyrir Svía. Hún skoraði 7 mörk. Jamis Roberts var næst með fjögur mörk. Pauletta Foppa skoraði sex mörk fyrir Frakka og Pauline Coatanea var næst með fjögur mörk.

Rússar rakna úr rotinu

Rússar náðu að rakna úr rotinu eftir 12 marka tap fyrir Svíum í fyrradag og leika vel, einkum í sókninni, gegn Ungverjum og vinna með sjö marka mun, 38:31. Rússneska liðið var með yfirhöndina frá upphafi til enda.

Ungverska liðinu virðist hafa fallið allur ketill í eld. Talsverðar væntingar voru gerðar til þess fyrir leikana. Eftir eins marks tap fyrir Frökkum í fyrstu umferð þá hefur leiðin legið niður á við með sex marka tapi fyrir Brasilíu og sjö marka tapi fyrir Rússum í dag. Framundan eru leikir við Spánverja og Svía. Ekki er ástæða til bjartsýni fyrir hönd Ungverja.

Katrín Gitta Klujber skoraði níu mörk fyrir Ungverja, þar af sjö úr vítaköstum. Szandra Szollosi-Zacsik var næst með fimm mörk.

Daria Dmitrieva var markahæst hjá Rússum sem nú hafa þrjú stig eftir þrjá leiki. Dmitrieva skoraði sjö mörk, fimm úr vítaköstum og Ekaterina Ilina skoraði sex mörk úr jafnmörgum skotum.

Spánn vann Brasilíu í nótt, 27:23. Nera Pena skoraði sjö mörk fyrir spænska landsliðið í leknum og Soledad Lopez var næst með fjögur. Burna de Paula var markahæst hjá Brasilíu með átta mörk.

Staðan:

Standings provided by SofaScore LiveScore
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -