- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

ÓL: Sigurganga Þóris og þeirra norsku heldur áfram

Þórir Hergeirsson, þjálfari Evrópumeistara Noregs. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Norska landsliðið í handknattleik kvenna, undir stjórn Þóris Hergeirssonar, vann heimsmeistara Hollands, 29:27, í uppgjöri taplausu liðanna í A-riðli Ólympíuleikanna í dag. Noregur hefur þar með átta stig að loknum fjórum leikjum og stendur vel að vígi fyrir lokaumferðina sem fram fer á mánudaginn. Þá verður japanska landsliðið, sem rekur lestina í riðlinum, andstæðingur Þóris og sveitar hans.

Eftir jafnan fyrri hálfleik var Hollandi marki yfir, 14:13. Í síðari hálfleik sýndi norska liðið styrk sinn og tók frumkvæðið. M.a var Noregur með þriggja marka forskot, þegar tvær mínútur voru eftir af leiktímanum. Hollenska liðið fékk tvö tækifæri á síðustu mínútu til að minnka muninn í eitt mark. Allt kom fyrir ekki. Silje Solberg, markvörður, varði skot Lauru van der Hejden þegar hálf mínúta var eftir og Sanne Solberg komst inn í sendingu hollenska liðsins í hraðaupphlaupi á lokasekúndunum.

Nora Mörk skoraði níu mörk, þarf af fimm úr vítaköstum. Veronica Kristiansen var næst með sex mörk. Solberg stóð allan leikinn í norska markinu og var með 33% hlutfallsmarkvörslu.

Inger Smits var atkvæðamest í hollenska liðinu með sjö mörk. Danick Snelder skoraði fimm mörk.

Stórt skref

Svartfellingar stigu í nótt skref á leið inn í átta liða úrslit með tveggja marka sigri á Suður Kóreu, 28:26. Svartfellingar eru þar með í þriðja sæti riðilsins með þrjú stig. Suður Kórea, Angóla og Japan berjast um fjórða sæti í lokaumferðinni á mánudaginn.

Eins og stundum áður þá dró Jovanka Radicevic vagninn fyrir Svartfellinga. Hún skoraði sex mörk í sjö tilraunum. Durdina Jaukovic og Majda Mehmedovic voru næst með fimm mörk hvor.  Migyeong Lee skoraði 10 af mörkum Suður Kóreu.

Angólaliðið er ekki alveg af baki dottið þrátt fyrir tap í þremur fyrstu leikjum sínum á leikunum. Angóla kveikti örlitla von um sæti í átta liða úrslitum með sigri á japanska landsliðinu í nótt, 28:25.

Natalina Santos, Albertina Kassoma og Isabel Guialo skoruðu fimm mörk hver fyrir Afríkumeistarana. Nozomi Hara skoraði í sex skipti fyrir japanska landsliðið sem var skrefi á eftir frá upphafi til enda þessa leiks.

Angóla mætir Suður Kóreu í hreinum úrslitaleik um sæti í átta liða úrslitum í lokaumferðinni á mánudaginn.

Úrslit í A-riðli í dag:
Angóla – Japan 28:25.
Svartfjallaland – Suður Kórea 28:26.
Noregur – Holland 29:27

Staðan:

Standings provided by SofaScore LiveScore

Leikir í lokaumferðinni á mánudag:
Angóla – Suður Kórera .
Holland – Svartfjallaland.
Noregur – Japan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -