„Við lékum frábæran varnarleik og Silje Solberg markvörður var framúrskarandi,“ sagði Þórir Hergeirsson, þjálfari norska kvennalandsliðsins, í samtali við heimasíðu norska handknattleikssambandsins eftir 12 marka sigur Noregs, 39:27, á Suður Kóreu í fyrstu umferð handknattleikskeppni Ólympíuleikanna í morgun. Solberg var með 43% hlutfallsmarkvörslu og fékk aðeins 10 mörk á sig í fyrri hálfleik.
„Frá byrjun til enda var frammistaða liðsins mjög heilsteypt,“ sagði Þórir ennfremur en varaði við bjartsýni fyrir komandi leiki. Næst mætir norska liðið landsliði Angóla á mándagsmorgun að íslenskum tíma. „Þá eigum við í höggi við erfiðari og ólíkari andstæðing en að þessu sinni,“ sagði Selfyssingurinn glaður í bragði.