- Auglýsing -
- Auglýsing -

ÓL: Þórir og norska landsliðið eru Ólympíumeistarar

Ólympíumeistarar Noregs fagna þegar sigurinn á Frökkum í úrslitaleiknum var í höfn. Ljósmynd/EPA
- Auglýsing -

Norska landsliðið í handknattleik, undir stjórn Þóris Hergeirssonar, er Ólympíumeistari í handknattleik kvenna eftir að hafa lagt heimsmeistara Frakklands, 29:21, í frábærum úrslitaleik Stade Pierre Mauroy Arena í Lille að viðstöddum liðlega 27 þúsund áhorfendum. Norska liðið var tveimur mörkum yfir í hálfleik.

Staðan í hálfleik var 15:13, Noregi í hag eftir að hafa snúið stöðunni úr 11:9 Frakklandi í hag. Norska liðið réði lögum og lofum í síðari hálfleik með frábærum varnarleik og náði hvað eftir annað fimm til sex marka forystu. Frakkar náðu að minnka muninn í fjögur mörk, 24:20. Nær komust þær ekki.

12 ára bið

Þetta er í annað sinn sem norska landsliðið verður Ólympíumeistari með Þóri í þjálfarastólnum. Tólf ár eru liðin frá gullverðlaununum í London 2012. Í millitíðinni hefur norska landsiðið farið heim með bronsverðlaun frá leikunum 2016 og 2021.

Vann sjö leiki í röð

Norska landsliðið tapaði fyrir Svíum í fyrsta leiknum á mótinu en vann þá sjö leiki sem tóku við eftir það, þar á meðal úrslitaleikinn í dag sem var frábærlega leikinn af hálfu þeirra norsku. Varnarleikurinn var frábær með Katrine Lunde í hörkustuði í markinu en hún varð Ólympíumeistari í þriðja sinn. Lunde og Camilla Herrem voru með Þóri í sigurliðinu á ÓL 2012 auk þess sem Lunde var annar markvörður norska landsliðsins sem vann gullið á ÓL 2008. Þá var Þórir aðstoðarþjálfari landsins. Hann tók síðan við sem aðalþjálfari um haustið.

Kveðjuleikir

Stine Oftedal Bredahl lék sinn síðasta handboltaleik á ferlinum. Hún er samningslaus og hyggst flytja til unnusta síns Rune Dahmke leikmanns THW Kiel og landsliðsmanns Þýskalands.

Olivier Krumbholz stýrði franska landsliðinu í síðasta sinn. Hann tilkynnti fyrir nokkrum mánuðum að hann ætlaði að hætta eftir Ólympíuleikana. Krumbholz, sem er einn sigursælasta þjálfari sögunnar hefur stýrt franska landsliðinu frá 1998 að árunum 2013 til 2016 undanskildum.

Mörk Noregs: Henny Reistad 8, Kari Brattset Dale 6, Stine Bredal Oftedal 5, Nora Mörk 3/2, Camilla Herrem 3, Stine Skogrand 2 Sanna Solberg-Isaksen 2.
Varin skot: Katrine Linde 12, 39% – Silje Solberg Östhassel 0.

Mörk Frakklands: Orlane Kanor 5, Tamara Horacek 4, Laura Flippers 3, Pauletta Foppa 3, Chloe Valentini 2, Lucie Granier 2, Alicia Toublanc 1, Meline Nocandy 1.
Varin skot: Laura Glauser 6, 22% – Hatadou Sako 3, 27%.

ÓL24: handbolti kvenna, leikir, úrslit, staðan

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -