Kurr er innan danska kvennalandsliðsins í handknattleik sem tekur þátt í Ólympíuleikunum. Jesper Jensen, landsliðsþjálfari, segir í samtali við Ekstra Bladet, að fyrsta reynsla hans og leikmanna af verunni í Ólympíuþorpinu sé ekki til að hrópa húrra fyrir. Flest sé lakara en leikmenn eigi að venjast frá stórmótum, s.s. heims- og Evrópumótum. Lítill glans sé yfir leikunum, enn sem komið er.
Vart á sig leggjandi
Bíða verði í röð allt upp í tíu mínútur eftir mat sem sé þar á ofan vondur eða ekki í samræmi við körfur sem íþróttamenn í fremstu röð gera. Til að bæta gráu ofan á svart taki það um hálftíma að ganga frá íbúðunum í matsalinn. Jensen þykir vart á sig leggjandi klukkutíma gönguferð eftir nær óætum mat og langri biðröð.
Rúmin í íbúðunum í Ólympíuþorpin eru óburðug, dýnurnar séu líkastar fiskinetum og sængur fornfálegar. Vitað er að forsvarsmenn einhverra íþróttasambanda hafa gert stórinnkaup í sængum og dýnum til þess að hressa upp á rúmin.
Hraktist um borgina
Jensen segir að ekki hafi bætt úr skák að rútubílstjóri liðsins hafi villst þegar liðið fór á æfingu með þeim afleiðingum að mikið meiri tími hafi farið í ferðina sem aftur raskaði æfingatímanum. Bílstjórinn nánast hraktist um borgina áður en hann rambaði inn á rétt leið.
Tólf ár eru liðin síðan danska kvennalandsliðið var síðast með á Ólympíuleikum. Aðeins einn leikmanna liðsins nú var þá með. Vandræðagangur í kringum Ólympíuleika er þar af leiðandi æði framandi fyrir aðra leikmenn liðsins og þjálfara þess.
Sögur sem þessar berast nánast frá hverjum einustu Ólympíuleikum og er skemmst að minnast papparúma sem keppendur sváfu á í Tókýó fyrir þremur árum.
Handknattleikskeppni kvenna á leikunum hefst á morgun. Danir mæta Slóvenum í fyrstu umferð árla dags. Leikjadagskrá keppninnar er að finna hér.