Ólafur Brim Stefánsson leikmaður Gróttu er á leiðinni til Al Yarmouk í Kúveit. Arnar Daði Arnarsson, umsjónarmaður Handkastsins, sagði frá þessum fregnum á X í kvöld og hefur samkvæmt heimildum. Blaðamaður handbolti.is, sem staddur er á Seltjarnarnesi vegna leiks Gróttu og ÍBV í Olísdeild karla sem hefst klukkan 19.30, hefur fengið tíðindin staðfest.
Ólafur Brim leikur væntanlega í kvöld sinn síðasta leik fyrir Gróttu. Eftir því sem næst verður komist kaupir Al Yarmouk í Kúveit, Ólaf af Gróttu.
Ólafur Brim verður þar með fyrsti íslenski handknattleiksmaðurinn til þess að leika með félagsliði í Kúveit.
Samkvæmt áreiðanlegum heimildum Sérfræðingsins er Ólafur Brim Stefánsson leikmaður Gróttu á leið til Mið-Austurlanda. Sérfræðingurinn hefur ekki fengið frekari fréttir en menn á Nesinu eru með málningarteip yfir kjaftinum á sér þessa stundina. Óvænt ef gengur upp. #Handkastið pic.twitter.com/iClnsNSX8T
— Arnar Daði (@arnardadi) September 28, 2023
Áður hefur Ólafur Stefánsson leikið í Katar og Björgvin Þór Hólmgeirsson með félagsliði í Dubai, svo tíndir séu til Íslendingar sem leikið hafa með félagsliðum við Arabíuflóann.
Til viðbótar léku þrír íslenskir handknattleiksmenn, Daníel Berg Grétarsson, Guðjón Drengsson og Jóhann Gunnar Einarsson, með félagsliði í Jórdaníu í skamman tíma fyrir um hálfum öðrum áratug.
Ólafur Brim gekk til liðs við Gróttu í sumar eftir eins árs veru hjá Fram. Hann hafði áður leikið með Gróttu, eða frá 2020 til 2022. Þar áður lék Ólafur Brim með Vals.
Fréttin hefur verið uppfærð með nafni félagsins sem Ólafur gengur til liðs við.