Ólafur Stefánsson hefur verið ráðinn þjálfari þýska handknattleiksliðsis EHV Aue. Félagið staðfesti ráðninguna í tilkynningu fyrir stundu. Handbolti.is sagði frá því í gærkvöld að líkur væri á að EHV Aue réði Ólaf til starfsins á næstunni. Samningur Ólafs við Aue gildir til loka júní á næsta ári.
EHV Aue er í næst efstu deild, 2. deild, í þýska handknattleiknum. Liðið kom upp úr 3. deild í vor eftir eins árs veru. Eftir níu töp í 10 fyrstu leikjunum var þjálfarinn Stephan Just leystur frá störfum á dögunum. EHV Aue er í næst neðsta sæti 2. deildar með fjögur stig. Ólafur hefur þar með verk að vinna við að stýra liðinu ofar en EHV Aue hefur lengi verið eitt af rótgrónu liðum næst efstu deildar.
Ólafur hætti í sumar í starfi aðstoðarþjálfara HC Erlangen eftir nærri hálft annað ár í starfi.
Fyrsti leikur EHV Aue undir stjórn Ólafs verður á sunnudaginn á heimavelli gegn Vinnhorst sem kom upp úr 3. deild í vor með Aue og datt niður í neðsta sæti eftir sigur Aue á laugadaginn á liðsmönnum N-Lübbecke, 31:27.
Markvörðurinn Sveinbjörn Pétursson er leikmaður EHV Aue. Hann kom til félagsins sumarið 2020 en hann var einnig í herbúðum liðsins 2012 til 2016.
Fetar í fótspor Rúnars
Ólafur fetar þar með í fótspor Rúnars Sigtryggssonar sem þjálfari EHV Aue frá 2012 til 2016 og aftur 2020/2021 þegar hann hljóp í skarðið þegar þáverandi þjálfari, Stephan Swat, veiktist alvarlega af covid og var um tíma á milli heims og helju. Swat er nú starfsmaður félagsins.
Aðrir Íslendingar sem komið hafa við sögu hjá EHV Aue auk Sveinbjörns og Rúnars eru Arnar Birkir Hálfdánsson, Arnar Jón Agnarsson, Árni Þór Sigtryggsson, Bjarki Már Gunnarsson, Hörður Fannar Sigþórsson og Sigtryggur Daði Rúnarsson svo þeirra helstu sé getið.