- Auglýsing -
- Auglýsing -

Ólíkindatól tekur við þjálfun landsliðs Hong Kong

Kim Ekdahl Du Rietz fyrir miðri mynd í kappleik með Rhein-Neckar Löwen fyrir nokkrum árum. Guðjón Valur Sigurðsson er Svíanum til hægri handar Gedeon Guardiola á vinstri hönd. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Handknattleiksferill sænska handknattleiksmannsins Kim Ekdahl du Rietz hefur enn á ný tekið óvænta stefnu. Hann hefur verið ráðinn í starf þjálfara karlalandsliðs Hong Kong í handknattleik. Til stendur að hann stýri landsliðinu á Asíuleikunum í haust þegar m.a. verður keppt um sæti í forkeppni Ólympíuleikana fyrir utan álfumeistaratitilinn.

Er í háskólanmámi

Ekdahl du Rietz er í Hong Kong vegna háskólanáms og mun af þeim sökum hafa kynnst nemendum sem halda úti handknattleiksliði. Eitt leiddi af öðru og nú er hinn 33 ára gamli Svíi orðinn landsliðsþjálfari. Hann segir í samtali við sænska fjölmiðla að handknattleiksmenn í Hong Kong eigi nokkuð í land að standa flestum landsliðum Asíu á sporði.


Ekdahl du Rietz, sem verður 34 ára gamall á morgun, er hið mesta ólíkindatól. Hann var framúrskarandi handknattleiksmaður en vildi um leið vera kóngsins lausamaður.

Eftir fimm ára veru hjá Rhein-Neckar Löwen í Þýskalandi var Ekdahl du Rietz leystur undan samningi að eigin ósk vorið 2017. Lagðist hann í ferðalög um heiminn. Var reiknað með að kappinn væri hættur handknattleik. Öðru var nær og ári síðar dúkkaði Ekdahl du Rietz upp á æfingu hjá þýska liðinu á nýjan leik og lék með því í nokkra mánuði.

Fór til Parísar og hætti

Sumarið 2018 samdi Ekdahl du Rietz við PSG og lék með franska meistaraliðinu í tvö ár. Tilkynnti hann öðru sinni vorið 2020 að hann væri hættur að stunda handknattleik sem atvinnumaður og lagði á ný land undir fót með nesti og nýja skó. Viti menn, vorið 2021 birtist kappinn enn á ný á æfingu hjá Rhein-Neckar Löwen. Vegna meiðsla í herbúðum Löwen lék Ekdahl du Rietz með liðinu í tveimur leikjum í úrslitahelgi Evrópudeildarinnar. Síðan hefur Svíinn haldið sig til hlés á handknattleiksvöllum Evrópu.

Ekdahl du Rietz hefur leikið 96 A-landsleiki fyrir Svíþjóð og var m.a. með í silfurliðinu á Ólympíuleikunum í London 2012. Hans síðustu landsleikir voru á EM 2020 en þá hafði hann ýmist hætt eða byrjað með landsliðinu oftar en einu sinni.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -