Öll spjót standa á Valsmönnum fyrir þriðja úrslitaleikinn við Fram um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik karla sem fram fer í N1-höllinni á Hlíðarenda í kvöld. Eftir að hafa tapað tveimur fyrstu leikjunum í einvíginu, 37:33 og 27:26, mega Valsmenn ekki við fleiri tapleikjum ætli þeir sér ekki að fara í sumarfrí þegar þeir leggjast á koddann í kvöld með mynd af syngjandi sælum leikmönnum Fram í huganum.
Flautað verður til leiks klukkan 19.30 á Hlíðarenda.
„Það er þungt að vera tveimur leikjum undir en við verðum að spila rétt úr stöðunni og taka hana sem áskorun. Áfram gakk,“ sagði Óskar Bjarni Óskarsson þjálfari karlaliðs Vals í viðtali við handbolta.is eftir tapið í Lambhagahöllinni á mánudagskvöldið.
Leikur Vals og Fram verður sendur út á Handboltapassanum og væntanlega einnig í opinni dagskrá Símans. Hverju sem því líður þá hikar handbolti.is ekki við að bjóða samkeppninni birginn og verður með textalýsingu frá Hlíðarenda.