Ókeypis aðgangur verður á síðari viðureign Íslands og Tyrklands í undankeppni Evrópumóts kvenna í handknattleik sem fram fer á Ásvöllum á sunnudaginn klukkan 16.
Olís býður íslensku þjóðinni að koma á leikinn meðan húsrúm leyfir og styðja við bakið á kvennalandsliðinu sem á harma að hefna gegn Tyrkjum eftir eins marks tap í fyrri viðureigninni ytra á miðvikudaginn.
Íslenska landsliðið kom heim frá Tyrklandi í gærkvöld. Í dag hélt undirbúningur fyrir leikinn á sunnudaginn áfram af miklum þunga. Æft var einu sinni í dag en framundan eru tvær æfingar á morgun. Einnig var fundað og farið yfir það sem betur mátti fara í fyrri leiknum. Eins var lagt á ráðin með leikaðferðir og skipulag í síðari viðureigninni.
Mikill eldmóður er í leikmönnum íslenska landsliðsins sem ætla sér að snúa við taflinu og vinna leikinn á heimavelli á sunnudaginn klukkan 16 á Ásvöllum.