Guillaume Gille, þjálfari Ólympíumeistarar Frakka í handknattleik karla er nokkur vandi á höndum nú þegar undirbúningur franska landsliðsins fyrir Evrópumeistaramótið sem stendur fyrir dyrum. Átta leikmenn í 20 manna leikmannahópi hafa greinst með kórónuveiruna á síðustu dögunum, þar af fimm í gær. Franska handknattleikssambandið greindi frá þessu í gærkvöld.
Til viðbótar heltist Nedim Remili úr lestinni rétt tveimur dögum fyrir jól vegna meiðsla auk þess sem markvörðurinn Vincent Gérard hefur dregið sig í hlé um stund af persónulegum ástæðum.
Nikola Karabatic, Benoît Kounkoud og Yanis Lenne greindust með veiruna á Þorláksmessu og í gær bættust Rémi Desbonnet, Hugo Descat, Aymeric Minne, Dylan Nahi og Élohim Prandi í hóp þeirra smituðu.
Í Frakklandi er smituðum skylt að vera í tíu daga sóttkví. Það þýðir að þeir sem smituðustu í gær verða lausir úr sóttkví 5. janúar. Þá verður rúm vika þar til flautað verður til leiks á EM.
Eins og ástandið er þá er ekki hægt að útiloka að fleiri smit komi upp í leikmannahópnum. Staðan hjá Frökkum minnir um margt á ástandið hjá tékkneska landsliðinu fyrir HM í Egyptalandi í upphafi þessa árs. Þá sýktist hver leikmaðurinn á fætur öðrum af veirunni auk þjálfaranna. Lauk þessu með að Tékkar lögðu árar í bát og drógu lið sitt úr keppni á elleftu stundu.