- Auglýsing -
- Eftir tvo tapleiki í upphafi handknattleikskeppni Ólympíuleikanna þá sprakk þýska kvennalandsliðið út í morgun og lagði landslið Slóveníu, 41:22. Óhætt er að segja að slóvenska liðið hafnaði á þýska varnarveggnum að þessu sinni eftir góðan sigur á Suður Kóreu í fyrradag. Annika Lott og Xenia Smits skoruðu átta mörk hvor og voru markahæstar í þýska lansliðinu í leiknum í morgun. Ana Gros skoraði sex mörk fyrir slóvenska liðið.
- Henny Reistad er í leikmannahópi norska landsliðsins sem mætir Suður Kóreu í þriðju umferð handknattleikskeppni kvenna á Ólympíuleikunum. Reistad, sem valin var besta handknattleikskona heims á síðasta ári og var mikilvægasti leikmaður HM kvenna í desember, hefur vegna meiðsla í ökkla ekki verið í leikmannahópi Noregs fyrr en nú. Óvíst er hversu mikið hún tekur þátt í leiknum. Thale Rushfeldt Deila var tekin út úr keppnishópnum til að rýma fyrir Reistad.
- Guillaume Gille landsliðsþjálfari Frakka í handknattleik karla segir hugarfar sinna manna ekki hafa verð rétt sem lýsir sér í slökum leik til þessa á Ólympíuleikunum. Frakkar hafa tapað fyrstu tveimur leikjum sínum, gegn Dönum og Norðmönnum, og verið langt frá sínu besta að Dika Mem undanskildum.
- Hinn þrautreyndi fyrirliði argentínska landsliðsins, Diego Simonet, meiddist í leik Argentínu og Ungverjalands í handknattleikskeppni Ólympíuleikanna í gærkvöld. Forsvarsmaður argentínska handknattleiksliðsins óttast að Simonet verði ekki með gegn Dönum í þriðju umferð riðlakeppninnar á morgun.
- Hvorki Alfreð Gíslason landsliðsþjálfari Þýskalands í handknattleik karla né Dagur Sigurðsson landsliðsþjálfari Króata búa í Ólympíuþorpinu þar sem flestir íþróttamenn búa. Að sögn þýskra fjölmiðla býr Alfreð á hóteli við hlið Ólympíuþorpsins þar sem hann hefur komið sér upp vinnuaðstöðu en Alfreð klippir og vinnur sjálfur alla leiki þýska liðsins og andstæðinganna. Hann er hinsvegar með annan fótinn í Ólympíuþorpinu með leikmönnum þar sem undirbúningur leikja fer fram auk þess sem liðið á þess kost að æfa saman, reyndar í sal utan þorpsins.
- Ósennilegt er talið að Simon Hald leiki fleiri leiki með danska karlalandsliðsins á Ólympíuleikunum eftir að hafa tognað á læri í leik við Egypta í gær. Lukas Jørgensen verður væntanlega kallaður inn í hópinn í stað Hald.
- Auglýsing -