Ómar Ingi Magnússon fór á kostum með SC Magdeburg í dag þegar liðið sótti Leipzig heim í þýsku 1. deildinni í handknattleik. Gísli Þorgeir Kristjánsson kom inn í lið Magdeburg en hann var skilinn eftir heima vegna meiðsla í byrjun vikunnar þegar Magdeburg sótti sænska liðið Alingsås heim í Evrópudeildinni.
Stórleikur Ómars og afar góður leikur Gísla Þorgeirs dugði Magdeburg þó skammt í heimsókninni til Leipzig. Heimamenn unnu með fjögurra marka mun, 33:29, eftir að hafa verið tveimur mörkum yfir í hálfleik, 16:14.
Ómar Ingi skoraði 10 mörk, þar af voru sex úr vítaköstum og var hann markahæsti leikmaður vallarins. Gísli Þorgeir skoraði þrjú mörk í fjórum skotum.
Magdeburg er fallið niður í 12. sæti deildarinnar með átta stig eftir átta leiki. Leipzig er í sjötta sæti.
Oddur var með á ný
Oddur Gretarsson sneri einnig inn í lið sitt, Balingen-Weilstetten, á nýjan leik eftir að hafa orðið af leik Balingen við Leipzig á fimmtudagskvöld vegna óþæginda í baki. Oddur og Balingen-menn áttu við ramman reip að draga í dag þegar leikmenn Flensburg sóttu þá heim. Silfurlið síðasta keppnistímabils í þýsku deildinni var sterkara frá upphafi til enda. Fór svo að það vann öruggan sjö marka sigur, 32:25. Staðan í hálfleik var 16:9. Flensburg í vil.
Oddur skoraði eitt mark í leiknum úr þremur skotum.
Staðan í þýsku 1. deildinni:
Rhein-Neckar Löwen 16(9), Kiel 14(8), Flensburg 14(8), Stuttgart 13(10), Göppingen 12(8), Leipzig 11(9),Lemgo 11(10), Wetzlar 10(10), Melsungen 9(6), F.Berlin 9(7), Erlangen 9(10), Magdeburg 8(8), Bergischer 7(8), Hannover-Burgdorf 6(7), Nordhorn 6(10), Balingen-Weilstetten 5(10), Luwdigshafen 5(10), GWD Minden 3(7), Essen 2(7), Coburg 0(8).
Nokkrir leikir standa nú yfir í deildinni og eins fer einn leikur fram í kvöld. Staðan mun þar af leiðandi fljótlega taka einhverjum breytingum.