Ómar Ingi Magnússon fyrirliði íslenska landsliðsins varð í gær sjöundi íslenski handknattleiksmaðurinn til þess að skora meira en 100 mörk fyrir landsliðið í lokakeppni Evrópumóts í handknattleik. Ómar Ingi skoraði átta mörk í leiknum og hefur þar með gert 104 mörk í lokakeppni EM. Tímamótamarkið skoraði Selfyssingurinn eftir 18 og hálfa mínútu í fyrri hálfleik er hann minnkaði muninn í 12:10 í leiknum við Króata. Það var hans fjórða mark í leiknum.
Alls skoraði Ómar Ingi átta mörk í leiknum við Króata í gær sem tapaðist, 30:29. Hann var markahæstur í íslenska liðinu ásamt Óðni Þór Ríkharðssyni.
Ómar Ingi er að taka þátt í sínu fjórða Evrópumóti með landsliðinu. Hann skoraði þrjú mörk á EM 2018, 59 mörk á EM 2022 og varð markakóngur keppninnar. Ómar bætti við 19 mörkum á EM 2024 í Þýskalandi og hefur þegar skorað 23 mörk í fjórum fyrstu leikjum Íslands á EM. Ómar Ingi tók ekki þátt í EM 2020 vegna höfuðmeiðsla.
100 marka EM-klúbbur landsliðsins telur nú sjö leikmenn. Þeir eru:(fjöldi EM-leikja innan sviga)
Guðjón Valur Sigurðsson, 288 (61).
Ólafur Stefánsson, 184 (33).
Aron Pálmarsson, 150 (44).
Snorri Steinn Guðjónsson, 143
Alexander Petersson, 111 (34).
Róbert Gunnarsson, 106 (37).
Ómar Ingi Magnússon, 104 (21).
Af núverandi leikmönnum landsliðsins er Bjarki Már Elísson næstur 100 marka múrnum. Hann hefur skorað 78 mörk í 26 leikjum á EM.

