Ómar Ingi Magnússon varð í kvöld Evrópumeistari í handknattleik með SC Magdeburg þegar liðið vann Füchse Berlin, 28:25, í úrslitaleik Evrópudeildarinnar í handknattleik í Mannheim. Þetta eru fyrstu sigurlaun SC Magdeburg í Evrópukeppni frá árinu 2007 þegar félagið vann EHF-keppnina, forvera Evrópudeildarinnar.
Gísli Þorgeir Kristjánsson var fjarverandi vegna meiðsla en hann er hluti af liðinu sem vann í kvöld enda tók hann þátt í sigurgöngu þess á leiktíðinni en Magdeburg tapaði aðeins einum leik í Evrópudeildinni á keppnistímabilinu, gegn sænska liðinu Alingsås í riðlakeppninni í haust.
Evrópudeildin varð til fyrir þetta tímabil þegar EHF-keppnin var lögð niður.
Magdeburg lagði grunn að sigri sínum í leiknum með frábærum fyrri hálfleik en liðið var sjö mörkum yfir að honum loknum, 15:8.
Ómar Ingi skoraði sjö mörk og átti þrjár stoðsendingar í leiknum. Tim Hornke skoraði einnig sjö mörk. Hinn íslenski Dani, Hans Lindberg, skoraði átta mörk fyrir Füchse Berlin.
Ýmir Örn Gíslason og félagar í Rhein-Neckar Löwen unnu Wisla Plock frá Póllandi, 32:27, í leiknum um bronsverðlaun í keppninni. Ýmir Örn skoraði eitt mark. Svíinn Jerry Tollbring skoraði 10 mörk fyrir Löwen.