- Auglýsing -
Handknattleikamðurinn Ómar Ingi Magnússon er klár í slaginn á ný með þýska meistaraliðinu SC Magdeburg þegar heimsmeistaramót félagsliða (IHF Super Globe) hefst á morgun í Sádi Arabíu. Þetta er staðfest á heimasíðu félagsins.
Ómar Ingi hefur ekki leikið með þýska liðinu í nærri tvær vikur af persónulegum ástæðum. Af sömu ástæðum gaf hann ekki kost á sér í íslenska landsliðið sem í síðustu viku vann Ísrael og Eistland í undankeppni Evrópumótsins.
Frá endurkomu Ómars Inga er sagt á heimasíðu SC Magdeburg í dag. Þar segir að Ómar Ingi hafi að eigin ósk gengist undir rannsóknir á Íslandi. Niðurstöður þeirra hafi verið jákvæðar og að hann má æfa og leika handknattleik áfram eins og ekkert hafi ískorist. Hinsvegar verði Ómar Ingi fljótlega að gangast undir lítilsháttar aðgerð. Hún eigi ekki að halda honum lengi frá æfingum og keppni.
SC Magdeburg vann heimsmeistarakeppni félagsliða fyrir ári síðan og á þar með titil að verja að þessu sinni. Fyrsti leikur Magdeburg í keppninni verður gegn Sydney University í fyrramálið.
- Auglýsing -