- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Ómar Ingi markahæstur og Magdeburg í 3. sæti

Ómar Ingi Magnússon leikmaður SC Magdeburg. Ljósmynd/EPA
- Auglýsing -


Ómar Ingi Magnússon var markahæstur hjá SC Magdeburg þegar liðið vann stórsigur í heimsókn til Stuttgart í dag í þýsku 1. deildinni í handknattleik, 36:25. Selfyssingurinn skoraði átta mörk, þar af eitt úr vítakasti. Með sigrinum færðist Magdeburg upp í þriðja sæti deildarinnar með 12 stig eftir sjö leiki.

Magdeburg er tveimur stigum og einum leik á eftir Melsungen sem er í efsta sæti. Melsungen er einmitt á leiðinni hingað til lands og mætir Val í Evrópudeildinni á þriðjudagskvöld á Hlíðarenda.

Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði eitt mark og gaf fjórar stoðsendingar. Lukas Mertens var næstur á eftir Ómari Inga með sex mörk. Lenny Rubin skoraði sjö mörk fyrir Stuttgartliðið sem er næst neðst í deildinni með tvö stig eftir níu leiki.

Lemgo heldur áfram að gera gott í 1. deildinni. Liðið vann Rhein-Neckar Löwen, 34:31, á heimavelli í dag. Arnór Snær Óskarsson var á leikskýrslu hjá Rhein-Neckar Löwen.

Unnu neðsta liðið

Í gær vann Gummersbach botnlið Potsdam, 28:26, í Berlin. Elliði Snær Viðarsson skoraði ekki fyrir Gummersbach ef marka má tölfræði á heimasíðu þýsku deildanna. Hann átti eina stoðsendingu og var einu sinni vikið af leikvelli.

Teitur Örn Einarsson er ennþá frá keppni vegna meiðsla sem hann varð fyrir síðla í september.

Gummersbach, sem Guðjón Valur Sigurðsson þjálfar, er með 12 stig eins og Magdeburg en hefur leikið tveimur leikjum fleira og situr í 7. sæti.

Staðan í þýsku 1. deildinni og fleiri deildum er að finna hér.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -