- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Ómar Ingi og Gísli Þorgeir eru þýskir meistarar

Þýskir meistarar SC Magdeburg 2021/2022. Mynd/Facbooksíða SC Magdeburg
- Auglýsing -

Það er glatt á hjalla í Magdeburg í Þýskalandi í kvöld eftir að lið félagsins innsiglaði þýska meistaratitilinn í handknattleik í fyrsta sinn í 21 ár. Magdeburg vann Balingen á heimavelli, 31:26, og hefur þar með átta stiga forskot þegar liðið á tvo leiki eftir. Kiel er í öðru sæti átta stigum á eftir og á þrjá leiki til góða.


Ómar Ingi Magnússon er þar með 12. Íslendingurinn sem verður þýskur meistari í handknattleik karla. Þeir fyrstu voru Axel Axelsson og Ólafur H. Jónsson með Dankersen 1977. Allir meistararnir voru tíundaðir í grein Sigmundar Ó. Steinarssonar blaðamanns sem birtist á handbolta.is fyrr í vikunni.


Gísli Þorgeir Kristjánsson, sem einnig leikur með Magdeburg, vann þýska meistaratitilinn í annað sinn. Gísli Þorgeir lék 10 leiki með meistaraliði Kiel leiktíðina 2019/2020.


Ómar Ingi og Gísli Þorgeir skoruðu sex mörk hvor í leiknum í kvöld.


Síðast þegar Magdeburg vann þýska meistaratitilinn var Alfreð Gíslason þjálfari liðsins og Ólafur Stefánsson kjölfesta þess. Bennet Wiegert núverandi þjálfari var einnig einn leikmanna meistaraliðsins 2001.

Magdeburg hefur leikið frábærlega á tímabilinu og unnið 30 af 32 leikjum sínum í deildinni til þessa. Þessa stundina er Ómar Ingi markahæsti maður deildarinnar með 218 mörk, einu marki á undan Hans Óttari Lindberg sem á leik til góða.

Magdeburg hlaut silfurverðlaun í bikarkeppninni og í Evrópdeildinni en vann hinsvegar heimsmeistaramót félagsliða í haust.


Hvorki Daníel Þór Ingason né Oddur Gretarsson skoruðu mark fyrir Balingen í kvöld. Daníel Þór var einu sinni vísað af leikvelli. Balingen er sem fyrr í næst neðsta sæti deildarinnar.

Janus Daði lék vel

Janus Daði Smárason skoraði sex mörk og átti þrjár stoðsendingar fyrir Göppingen sem vann Rhein-Neckar Löwen á heimavelli, 30:28. Ýmir Örn Gíslason lék aðallega í vörn Rhein-Neckar Löwen og var ekki á meðal þeirra sem skoraði mark.

Töpuðu fyrir botnliðinu

Andri Már Rúnarsson og Viggó Kristjánsson skoruðu ekki mark fyrir Stuttgart sem tapaði fyrir neðsta liði deildarinnar Lübbecke, 31:29, á heimavelli. Andri Már átti tvær stoðsendingar og Viggó eina. Stuttgart er úr fallhætti en Lübbecke er fallið í 2. deild eftir eitt tímabil í þeirri fyrstu.

Standings provided by SofaScore LiveScore
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -