Gísli Þorgeir Kristjánsson og Ómar Ingi Magnússon léku báðir með SC Magdeburg í kvöld á heimavelli þegar liðið vann Lemgo, 30:27, í þýsku 1. deildinni í handknattleik. Báðir urðu þeir fyrir hnjaski í viðureign Magdeburg og RK Zagreb í Meistaradeild Evrópu í vikunni og þótti um skeið vafi leika á um hvort þeir gætu verið með í dag.
Ómar Ingi skoraði fimm mörk, tvö þeirra úr vítaköstum. Einnig gaf hann tvær stoðsendingar. Gísli Þorgeir skoraði eitt mark og er skráður fyrir einni stoðsendingu. Philipp Weber var markahæstur með níu mörk. Samuel Zehnder skoraði níu mörk fyrir Lemgo sem komið hefur mörgum á óvart á leiktíðinni með góðum árangri.
Í þriðja sæti
Magdeburg er í þriðja sæti með 14 stig eins og Füchse Berlin og Gummersbach. Magdeburg hefur leikið einum og tveimur leikjum færra en hin liðin tvö.
Viggó og Andri öflugir
Viggó Kristjánsson landsliðsmaður í handknattleik kemur í góðu formi til móts við íslenska landsliðið. Hann skoraði átta mörk og gaf fimm stoðsendingar þegar SC DHfK Leipzig tapaði með sex marka mun í heimsókn til Flensburg, 35:29. Andri Már Rúnarsson skoraði þrjú mörk og gaf tvær stoðsendingar. Rúnar Sigtryggsson er þjálfari SC DHfK Leipzig sem er í 11. sæti með átta stig að loknum níu leikjum. Flensburg er í sjötta sæti. Emil Jakobsen skoraði níu mörk fyrir Flensburg.
Stórkostleg línusending Viggós í leiknum:
Viggó með eina flottustu linusendingu sem ég séð lengi pic.twitter.com/keSvhWljB5
— Tommi Tanölg (@TomasJohannss) November 3, 2024
Gummersbach vann
Gummersbach vann HSV Hamburg, 33:29, á heimavelli í dag og færðist upp að hlið Füchse Berlin og Magdeburg með 14 stig í þriðja til fimmta sæti. Eftir því sem næst verður komist er Elliði Snær Viðarsson meiddur og kom ekkert við sögu hjá Gummersbach.
Teitur Örn Einarsson, sem gerði sér vonir um að ná þessum leik þegar hann var hér á landi um miðjan síðasta mánuð, tók ekki þátt í leiknum. Ljóst er að hann mætir ekki til leiks fyrr en eftir miðjan nóvember þegar keppni hefst aftur í þýsku 1. deildinni að loknu landsleikjahléinu sem tekur við næstu daga. Teitur Örn meiddist í lok september.
Ole Pregler skoraði átta mörk fyrir Gummersbach og var markahæstur. Kristjan Horzen var næstur með sjö mörk. Leif Tissier skoraði oftast leikmanna HSV, átta sinnum.
Füchse Berlin vann Kiel örugglega í Berlin í dag, 35:26. Varnarleikur Kiel var slakur og kom liðinu í koll að þessu sinni.
Elmar og félagar unnu
Elmar Erlingsson skoraði fjögur mörk og gaf tvær stoðsendingar þegar HSG Nordhorn-Lingen vann kærkominn sigur á Eintracht Hagen, 32:30, á heimavelli í neðri hluta 2. deildar þýska handknattleiksins í dag. HSG Nordhorn-Lingen er í 14. sæti af 18 liðum með átta stig að loknum 10 leikjum eftir erfiða byrjun í deildarkeppninni.
Staðan í 1. deild: