- Auglýsing -
- Auglýsing -

Ómar Ingi skoraði 14 mörk í Nürnberg

Ómar Ingi Magnússon leikmaður SC Magdeburg. Ljósmynd/EPA
- Auglýsing -

Ómar Ingi Magnússon var óstöðvandi í gær með liði sínu SC Magdebug og skoraði 14 mörk, þar af sex úr vítaköstum, í öruggum sigri á HC Erlangen í heimsókn Magdeborgarliðsins til Nürnberg, 32:27. Vart þarf að taka fram, en það er þó gert, að Ómar Ingi var markahæstur leikmanna Magdeburg að þessu sinni. Hann átti einnig þrjár stoðsendingar.

Hvorki Kiel né Flensburg

Magdeburg er efst í deildinni með 54 stig eins og Füchse Berlin. Síðarnefnda liðið hefur lokið 32 af 34 leikjum en Magdeburg á fjóra leiki eftir. Ljóst er að liðin tvö öðlast sæti í Meistaradeild Evrópu á næsta keppnistímabili. Um leið verður það í fyrsta skipti í 23 ár þar sem annað hvort THW Kiel eða Flensburg eru fulltrúar Þýskalands í Meistaradeildinni.

Janus og Gísli

Janus Daði Smárason skoraði tvö mörk og átti eina stoðsendingu og var einu sinni vikið af leikvelli í liði Magdeburg í sigurleiknum í Nürnberg. Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði eitt mark og átt þrjár stoðsendingar.

Lék við hvern sinn fingur

Viggó Kristjánsson átti einnig stórleik með SC DHfK Leipzig í 12 marka sigri liðsins á HSV Hamburg á heimavelli í þýsku 1. deildinni í handknattleik. Viggó lék við hvern sinn fingur og andstæðingana grátt um leið. Hann skoraði 9 mörk, ekkert úr vítakasti. Stoðsendingarnar voru fjórar. Andri Már Rúnarsson lét ekki sitt eftir liggja í leiknum. Hann skoraði þrisvar sinnum og átti eina stoðsendingu. Faðir hans, Rúnar Sigtryggsson, þjálfar SC DHfK Leipzig sem í áttunda sæti.

Dýrmætur sigur

Teitur Örn Einarsson skoraði ekki mark fyrir Flensburg þegar liðið tapaði fyrir Eisenach í heimsókn í austrið, 28:27. Mateusz Kornecki markvörður Eisenach tryggði liðinu stigin tvö þegar hann varði skot úr opnu færi á síðustu andartökum leiksins. Stigin tvö fara langt með að tryggja Eisenach áframhaldandi veru í þýsku 1. deildinni. Liðið kom upp úr 2. deild fyrir ári en þótti ekki líklegt til að hanga upp í efstu deild nema í eitt tímabil.

Hannover-Burgdorf tapaði fyrir Füchse Berlin á heimavelli, 28:25, og situr áfram í sjötta sæti 1. deildar, rétt fyrir ofan Gummersbach. Heiðmar Felixson er aðstoðarþjálfari Hannover-Burgdorf.

Staðan:

Standings provided by Sofascore
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -