Ómar Ingi Magnússon fékk enn eina rósina í hnappgatið í gær þegar hann var útnefndur besti leikmaður maímánaðar í þýsku 1. deildinni í handknattleik. Valið á leikmanni mánaðarins fer fram á netinu en er á vegum deildarkeppninnar. Ómar Ingi fékk næri 38% atkvæða. Næstur varð Norðmaðurinn Sander Sagosen með nærri fjórðung atkvæða.
Ómar Ingi var einn sjö leikmanna sem tilnefndir voru í valinu á dögunum. Hinir sem valið stóð milli eru Kevin Möller, markvörður Flensburg, Emil Jakobsen vinstri hornamaður Flensburg, Sander Sagosen vinstri skytta hjá Kiel, Jim Gottfridsson miðjumaður Flensburg, Tim Zechel línumaður Erlangen og Hans Ottar Lindberg hægri hornamaður Füchse Berlin.
Allt keppnistímabilið hefur Ómar Ingi farið á kostum með SC Magdeburg, raunar eins og í fyrra, tímabilið 2020/2021. Vegna þess hefur hann oft verið í liði mánaðarins, bæði á yfirstandandi keppnistímabili og á því síðasta þegar hann varð m.a. markakóngur og annar í röðinni þegar stoðsendingar voru taldar saman.
Ómar Ingi varð þýskur meistari í fyrsta sinn í síðustu viku þegar SC Magdeburg tryggði sér meistaratitilinn í fyrsta sinn í 21 ár. Gísli Þorgeir Kristjánsson leikur og Ómar Ingi stórt hlutverk hjá meistaraliðinu.
Ómar Ingi er nú í þriðja sæti á lista yfir markahæstu leikmenn deildarinnar þegar tvær umferðir eru eftir óleiknar.