Ómar Ingi Magnússon leikur ekki með íslenska landsliðinu í handknattleik á heimsmeistaramótinu í handknattleik í næsta mánuði. Það virðist ljóst eftir að félag hans, SC Magdeburg, tilkynnti fyrir stundu að Ómar Ingi verði frá keppni næstu þrjá mánuði vegna meiðsla sem hann varð fyrir á hægri ökkla í viðureign Magdeburg og Bietigheim í þýsku 1. deildinni í handknattleik á sunnudaginn.
Ljóst er að um mikið högg er að ræða fyrir íslenska landsliðið vegna þess að Ómar Ingi hefur verið ein kjölfesta þess undanfarin ár. M.a. varð Ómar Ingi markakóngur EM 2022. Alls á hann að baki 88 landsleiki.
Í tilkynningu SC Magdeburg segir að ekki sé þörf á aðgerð vegna ökklameiðslanna. Hinsvegar sé reiknað með að allt að þrír mánuðir líði áður en Ómar Ingi verður tilbúinn að leika aftur með Magdeburg. Það þýðir að hann verður frá keppni út febrúar.
Fyrsti leikur íslenska landsliðsins á HM karla verður 16. janúar gegn landsliði Grænhöfðaeyja.
Sjá einnig: Ómar Ingi meiddist á ökkla með Magdeburg