- Auglýsing -
Nýkrýndir sigurvegarar heimsmeistaramóts félagsliða, SC Magdeburg, halda áfram sigurgöngu sinni í þýsku 1. deildinni. Í dag lögðu þeir Flensburg örugglega á heimavelli, 33:28, eftir að hafa verið um skeið með sjö marka forskot. Magdeburg var fimm mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 18:13.
Ómar Ingi Magnússon var næst markahæstur hjá Magdeburg. Hann skoraði átta mörk, þar af fimm úr vítaköstum. Daninn Michael Damgaard var markahæstur með 10 mörk. Lasse Svan skoraði sex mörk fyrir vængbrotið lið Flensburg.
Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði eitt mark fyrir SC Magdeburg sem er efst í deildinni með 14 stig að loknum sjö leikjum.
Viðureign Wetzlar og Bergischer var hætt í gærkvöld þegar átta mínútur voru til leiksloka vegna alvarlegrra veikinda áhorfanda. Staðan var þá 21:19.
Leik Rhein-Neckar Löwen og Leipzig var frestað vegna kórónuveirusmits í herbúðum Löwen.
Þrír leikir hófust í þýsku 1. deildinni klukkan 14.
- Auglýsing -