- Auglýsing -
- Auglýsing -

Ömurlegt að fá ekkert

Kristinn Björgúlfsson, hefur ákveðið að láta gott heita við þjálfun karlaliðs ÍR. Mynd/ÍR
- Auglýsing -

„Það er ömurlegt að fá ekki að minnsta kosti eitt stig. Ég hefði viljað að þau hefðu verið tvö,“ sagði Kristinn Björgúlfsson, þjálfari karlaliðs ÍR, í samtali við handbolta.is í gærkvöldi eftir að hans lið tapaði fyrir Stjörnunni, 27:24, í íþróttahúsinu í Austurbergi í Breiðholti. ÍR hóf leikinn af krafti og var með sjö marka forskot, 10:3, eftir liðalega stundarfjórðung en leikmönnum féll allur ketill í eld þegar Stjarnan fór að leika með sjö menn í sókn. Eftir það skoraði ÍR aðeins eitt mark fram til loka fyrri hálfleiks á sama tíma og Stjarnan skoraði átta mörk.


„Við vorum með leik alveg þangað til í blálokin en eftir stendur að Stjarnan fékk stigin tvö en við ekkert. Ástæðuna fyrir að við fengum ekkert út úr leiknum má eflaust skrifa á mig, reynsluleysi eða hvað sem er. Þegar upp er staðið þá stóðu strákarnir sig vel og þeir eru sárir og svekktir yfir að hafa ekki náð einhverju út úr leiknum,“ sagði Kristinn sem ennfremur nefndi atriði sem ekki hefði fallið ÍR-ingum í hag á lokakaflanum.


„Þrjú til fjögur atriði í lokin vógu þungt þegar upp var staðið. Mínir menn voru reknir af leikvelli fyrir litlar eða engar sakir meðan Stjörnumenn sluppu við refsingu fyrir svipuð brot. Í jöfnum leik þá er erfitt að vera manni færri á lokasprettinum og ekkert óeðlilegt að Stjarnan næði að slíta sig frá okkur á þeim tíma.“

Ættum að vera með nokkur stig

ÍR er án stiga eftir sex leiki í Olísdeildinni og við hvert tapið syrtir í álinn. Kristinn sagðist ekki draga fjöður yfir að fyrirfram hafi verið vitað að róðurinn yrði þungur fyrir liðið. Það hafi hann viðurkennt frá upphafi.

„Mínir menn hafa hinsvegar lagt sig fram í hverjum leik. Í nokkrum leikjum hefur liðið spilað mjög vel að mínu mati og ætti að vera með nokkur stig. Staðreyndin er sú að við erum ekki með eitt einasta stig og verðum hreinlega að herða róðurinn,“ sagði Kristinn í samtali við handbolta.is eftir leikinn í Austubergi í gærkvöld.
Næsti leikur ÍR verður á móti KA í KA-heimilinu á sunnudaginn. Flautað verður til leiks klukkan 16.

Stöðuna í Olísdeild karla og dagskrá næstu leikja er hægt að sjá hér.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -