- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Örn fer aftur til Þýskalands – hefur samið við Lübbecke

Örn Vésteinsson Östenberg er nýr leikmaður TuS N-Lübbecke. Mynd/TuS N-Lübbecke
- Auglýsing -

„Mig langaði aftur til Þýskalands og nú þegar tækifærið gafst þá var ég ekki lengi að hugsa mig um og slá til,“ sagði handknattleiksmaðurinn Örn Vésteinsson Östenberg sem hefur samið við þýska 2. deildarliðið TuS N-Lübbecke út keppnistímabilið. Örn hefur leikið með Haslum í norsku úrvalsdeildinni fram til þess á keppnistímabilinu en fær að kveðja liðið þegar í stað. Haslum rekur lestina í deildinni og er í peningabasli.

Líkaði vel í Þýskalandi

„Ég er mjög ánægður með að komast aftur í þýska hanboltann. Mér líkaði afar vel hjá Emsdetten á síðasta keppnistímabili en því miður þá féllum við í vor og þá fór ég frá félaginu eftir mjög lærdómsríkan og skemmtilegan tíma með góðum félögum,“ sagði Örn ennfremur þegar handbolti.is sló á þráðinn til hans eftir að Örn hafði lokið öllum formsatriðum varðandi samningagerðina við TuS N-Lübbecke sem er í nágrenni Minden í Þýskalandi.

Kom upp í síðustu viku

Örn sagðist hafa heyrt af áhuga TuS N-Lübbecke snemma í síðustu viku og farið nánast í heimsókn til félagsins. Önnur hægri handarskytta liðsins sleit krossband á dögunum og verður þar af leiðandi ekki meira með á tímabilinu.

Örn, sem er 24 ára gamall, er ekki ýkja þekktur þrátt fyrir að hafa leikið með yngri landsliðum Íslands og verið um skeið með liðum Selfoss og Gróttu. Örn fæddist í Svíþjóð og ólst upp í Växjö í Smálöndum. Faðir hans er Vésteinn Hafsteinsson frá Selfossi, Íslandsmethafi í kringukasti og þjálfari fremstu kringlukastara heims undanfarin hálfan annan áratug. Móðirin, Anna Östenberg, var þekkt frjálsíþróttakona í Svíþjóð landsmetshafi í kringukasti um árabil. Örn er elstur af þremur börnum Vésteins og Önnu.

Hlakkar til

„Mér leist vel á aðstæður og ákvað að slá til. Ég hlakka til að mæta í slaginn á nýjan leik,“ sagði Örn sem vonast til þess að verða gjaldgengur með TuS N-Lübbecke gegn Bietigheim á laugardaginn. Ef ekki þá verður næsti leikur liðsins á milli jóla og nýárs á útivelli við Konstanz.

Í öðru sæti

TuS N-Lübbecke féll úr 1. deildinni í vor eftir eins árs dvöl. Um þessar mundir er liðið í öðru sæti 2. deildar með 23 stig eftir 16 leiki, er sex stigum á eftir forystuliðinu Balingen-Weilstetten sem einnig féll úr 1. deild eftir síðasta tímabil.

Fetar í fótspor Íslendinga

Örn á ættir að rekja til Selfoss en hann er sonur Vésteins Hafsteinssonar kastþjálfara. Annar Selfyssingur, Þórir Ólafsson, lék með TuS N-Lübbecke frá 2005 til 2011. Eyjamaðurinn og markvörðurinn Birkir Ívar Guðmundsson var markvörður liðsins 2006 til 2008. Síðar lék Heiðmar Felixson, núverandi aðstoðarþjálfari Hannover-Burgdorf, með TuS N-Lübbecke frá 2009 til 2010.

Fyrstur íslenskra handknattleiksmanna til þess að leika með Nettelstedt var hornamaðurinn Bjarni Guðmundsson. Hann var með liði félagsins í tvö tímabil frá 1981 til 1983. Sigurður Sveinsson var leikmaður félagsins 1982/1983. Julian Duranona kom síðan til Nettelstedt 2000 og var þar í tvö ár.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -