Orra Frey Þorkelssyni héldu engin bönd í kvöld þegar hann var með fullkomna skotnýtingu, 10 mörk í 10 skotum, í 10 marka sigri Sporting Lissabon á Belenenses, 37:27, í sjöttu umferð portúgölsku 1. deildarinnar. Þetta var allra besti leikur Orra Freys af nokkrum góðum með liðinu til þessa á leiktíðinni.
Orri Freyr, sem gekk til liðs við Sporting í sumar, hefur skorað 5,7 mörk að jafnaði í leik í portúgölsku deildinni til þessa. Skotnýting hans er 88% sem er ekkert slor.
Sporting er eitt efst í deildinni með 18 stig eftir sex leiki. Porto er stigi á eftir en veitt eru þrjú stig fyrir sigur, tvö fyrir jafntefli en eitt fyrir tap í portúgölsku deildinni.
Benfica er í þriðja sæti með 15 stig eftir sex leiki. Stiven Tobar Valencia er leikmaður Benfica sem sat hjá í kvöld eftir að hafa leikið viðureign sína í sjötta umferð í síðustu viku.
Staðan á einni síðu
Hægt að kynna sér stöðuna í mörgum deildum evrópska handknattleiksins á sérstakri stöðusíðu sem sett hefur verið upp undir flipanum staða og leikir og m.a. má nálgast hér.