Orri Freyr Þorkelsson landsliðsmaður í handknattleik og félagar hans gerðu góða ferð til Þrándheims í kvöld og lögðu Kolstad með fjögurra marka mun í 6. umferð A-riðils Meistaradeildar Evrópu, 34:30. Orri Freyr skoraði fjögur mörk í sex skotum, þar af eitt mark úr vítakasti. Tvö vítakasta hans misstu marks.
Kolstad-liðið var fjórum mörkum yfir í hálfleik, 19:15. Hvorki gekk né rak í sóknarleiknum í síðari hálfleik og leikmenn Sporting nýttu tækifærið, komust yfir og unnu að lokum öruggan sigur.
Benedikt Gunnar Óskarsson skoraði tvö mörk í fimm skotum fyrir Kolstad og átti þrjár stoðsendingar. Sigvaldi Björn Guðjónsson tókst ekki að skora en gaf eina stoðsendingu.
Sigurjón Guðmundsson var um skeið í marki Kolstad og varði tvö af fimm skotum sem hann fékk á sig á lokakafla leiksins.
Arnór Snær Óskarsson kom ekkert við sögu hjá Kolstad.
Danska meistaraliðið Aalborg Håndbold vann HBC Nantes í Frakklandi í hinni viðureign kvöldsins í A-riðli, 28:27. Leikið var í Nantes.
Staðan í A-riðli:
Einn leikur í B-riðli
Í eina leik B-riðils vann ungverska liðið Pick Szeged lið RK Zagreb, 28:23, í Zagreb. Janus Daði Smárason lék ekki með Pick Szeged vegna meiðsla.