Orri Freyr Þorkelsson og félagar í Elverum leika til úrslita í úrslitakeppni norsku úrvalsdeildarinnar í handknattleik. Það liggur fyrir eftir þriðja sigur Elverum á Nærbø, 30:26, í Terningen Arena í Elverum í dag. Á sama tíma vann Kolstad liðsmenn Runar, 35:22, í Þrándheimi. Staðan í því einvígi er 2:1 í vinningum talið. Kolstad þarf einn vinning til viðbótar.
Orri Freyr var markahæstur hjá Elverum í dag með fimm mörk og hafði greinilega jafnað sig eftir að hafa fengið högg á mjöðmina í öðrum leik liðanna fyrir nokkrum dögum.
Átta mörk hjá Sigvalda
Sigvaldi Björn Guðjónsson var einnig markahæstur hjá Kolstad í sigrinum örugga á Runar, 35:22. Sigvaldi Björn skoraði átta mörk, þar af fjögur úr vítaköstum. Janus Daði Smárason skoraði fjórum sinnum. Hann átti einnig sex stoðsendingar.
Næsta viðureign Kolstad og Runar verður í Runarhallen í Sandefjord á fimmtudaginn.