- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Orri Freyr og félagar stefna á annað sæti – Wisla vann í Búkarest

Orri Freyr Þorkelsson landsliðsmaður og leikmaður Sporting Lissabon. Ljósmynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -


Orri Freyr Þorkelsson og félagar í Sporting Lissabon eru í harðri keppni um annað sætið í A-riðli Meistaradeildar Evrópu í handknattleik. Þeir unnu Fredericia HK, 32:29, á heimavelli í gær í 13. og næst síðustu umferð riðlakeppninnar. Sporting komst þar með upp í annað sæti riðilsins, alltént í bili, með 17 stig. PSG er stigi á eftir og tekur á móti efsta liði riðilsins, Veszprém í kvöld.

Efstu tvö liðin í riðlinum sitja yfir í fyrstu umferð útsláttarkeppninnar og fara rakleitt í átta liða úrslit. Veszprém er þegar öruggt um efsta sætið. Þess vegna er eftir nokkru að slægjast að sitja yfir eina umferð í þéttri dagskrá í evrópskum handknattleik.

Orri Freyr skoraði fimm mörk

Orri Freyr skoraði fimm mörk í leiknum í gær. Martím Costa skoraði 12 mörk og yngri bróðir hans, Francisco, var næstur með níu mörk.

Einar Þorsteinn Ólafsson var ekki á meðal þeirra sem skoraði fyrir Fredericia HK sem rekur lestina í riðlinum. Guðmundur Þórður Guðmundsson er þjálfari Fredericia HK sem hóf leikinn af krafti og náði um skeið fimm marka forskoti, 11:6.

Viktor Gísli ekki með vegna meiðsla

Viktor Gísli Hallgrímsson lék ekki með pólska meistaraliðinu Wisla Plock vegna ökklameiðsla í dýrmætum sigri á Dinamo Búkarest, 27:26, í viðureign liðanna í A-riðli. Ekki er ljóst hvort meiðsli Viktors Gísla eru alvarleg.

Sigurinn gæddi vonir leikmanna Wisla Plock um að komast í fyrstu umferð útsláttarkeppninnar en staða liðsins var um tíma slæm. Góðir sigrar upp á síðkasti hefur á hinn bóginn styrkt stöðuna verulega.

Haukur með tvö mörk

Haukur Þrastarson skoraði tvö mörk fyrir Dinamo í leiknum í gær. Dinamo er í sjötta sæti fyrir lokaumferðina eftir viku.
Andrii Akimenko var markahæstur hjá Dinamo með sex mörk og Przemyslaw Krajewski skoraði sjö mörk fyrir Wisla Plock.

Í B-riðli náði Nantes í stig í heimsókn til Indurstria Kielce í Póllandi, 28:28, og Aalborg Håndbold lagði RK Zagreb Álaborg, 33:30.

Staðan í A-riðli:

Standings provided by Sofascore


Staðan í B-riðli:

Standings provided by Sofascore
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -