Orri Freyr Þorkelsson og samherjar í Elverum jöfnuðu í dag metin í rimmunni við Kolstad í úrslitakeppni norsku úrvalsdeildarinnar í handknattleik karla með sex marka sigri á heimavelli, 33:27, í annarri viðureign liðanna. Elverum var með fjögurra marka forskot í hálfleik, 15:11. Næsta viðureign verður á miðvikudaginn í Kolstad Arena í Þrándheimi.
Orri Freyr skoraði ekki mark í leiknum. Daniel Blomgren var markahæstur hjá Elverum með átta mörk.
Níu íslensk mörk
Leikmönnum Elverum gekk aðeins betur í dag að halda Janusi Daða Smárasyni niðri en í fyrsta leiknum þegar hann fór á kostum og skoraði 11 mörk og átti 12 stoðsendingar. Janus Daði skoraði fjórum sinnum að þessu sinni, þar af í eitt sinn úr vítakasti. Einnig gaf Selfyssingurinn sex stoðsendingar.
Sigvaldi Björn Guðjónsson skoraði fimm mörk, eitt af vítalínunni. Einnig átti Sigvaldi Björn einar stoðsendingu.
Vinna þarf þrjá leiki til þess að bera sigur úr býtum í úrslitakeppninni.