Orri Freyr Þorkelsson fagnaði sínum fyrsta titli með portúgalska liðinu Sporting frá Lissabon í kvöld þegar liðið lagði Stiven Tobar Valencia og samherja í Benfica, 38:34, í úrslitaleik í meistarakeppninni en í henni tóku þátt fjögur efstu lið deildarkeppninnar á síðustu leiktíð.
Orri Freyr, sem gekk til liðs við Sporting í sumar frá Elverum í Noregi, skoraði eitt mark í úrslitaleiknum sem fram fór í íþróttahöllinni í Santo Tirso, rétt norður af Porto. Stiven Tobar skoraði tvö mörk fyrir Benfica sem var marki undir í hálfleik, 18:17.
Bræðurnir Martim og Francisco Costa voru markahæstir hjá Sporting. Martim skoraði níu mörk og Francisco sjö. Þjóðverjinn Ole Rahmel skoraði sjö mörk fyrir Benfica og Filip Taleski sex.
Sporting vann Porto í undanúrslitum í gær og Benfica lagði Madeira.
Báðir Íslendingarnir eiga eftir að leika einu sinni með liðum sínum í 1. deildinni áður en gert verður hlé á keppni fram í byrjun febrúar vegna Evrópumótsins í handknattleik.