Piltarnir í U19 ára landsliðinu í handknattleik karla tryggðu sér í dag sæti í undanúrslitum á alþjóðlega handknattleiksmótinu um Sparisjóðsbikarinn, Sparkassen Cup, í Merzig í suðurhluta Þýskalands í dag þegar þeir unnu landslið Sviss á sannfærandi hátt, 33:27. Íslenska liðið vann Egyptaland í fyrsta leik sínum á mótinu í gær.
Staðan var 17:13 að loknum fyrri hálfleik gegn Sviss. Íslenska liðið hafði tögl og hagldir allan síðari hálfleikinn.
Einn eftir í riðlinum
Þriðji og síðasti leikur íslensku piltanna í riðlakeppninni verður gegn úrvalsliði Saarlands í kvöld. Flautað verður til leiks klukkan 18.20. Hvernig sem sú viðureign endar er ljóst að íslenska liðið hafnar í efsta sæti síns riðils. Saarlandsliðið hefur þegar tapað fyrir liðum Egyptalands og Sviss.
Krossspil á morgun
Krossspil fer fram fyrri hluta dags á morgun gegn liði úr hinum riðlinum. Í honum eru landslið Þýskalands, Hollands, Norður Makedóníu, Austurríkis. Flest bendir til þess að íslensku piltarnir leikir klukkan 11.30 á morgun gegn Norður Makedóníu.
Að loknu krossspilinu tekur við leikur um sæti og víst er að íslenska liðið leikur annað hvort til úrslita eða um þriðja sætið.
Mörk Íslands: Reynir Þór Stefánsson 8, Skarphéðinn Ívar Einarsson 6, Kjartan Þór Júlíusson 5, Eiður Rafn Valsson 4, Elmar Erlingsson 3, Daníel Örn Guðmundsson 2, Hans Jörgen Ólafsson 1, Atli Steinn Arnarson 1, Sigurður Snær Sigurjónsson 1, Þorvaldur Örn Þorvaldsson 1, Hinrik Hugi Heiðarsson 1.
Varin skot: Ísak Steinsson 11, Breki Hrafn Árnason 1.